Það er klárt að við hefðum átt að nota tækifærið og sjá Whitney Houston á tónleikunum í Sørmarka Arena 6. júní 2010. Ég sá reyndar dálítið eftir því þá að hafa ekki farið og skrifa það ekki bara núna af því að hún er farin fram af heiminum heldur skrifaði ég það einnig í pistli að kvöldi tónleikadagsins sem lesa má hér til sannindamerkis og guð sé mér hollur ef ég satt segi, gramur ef ég lýg.
Ég fór samt ekki á þessa tónleika enda hefði það nú verið hálfvegis út í hött. Eina lag Whitney Houston sem ég kann að nefna er I Will Always Love You. Með sömu rökum fór ég ekki á tónleika Rage Against the Machine í Kaplakrika 12. júní 1993, maður þekkti þá enn sem komið var ekkert með þeim nema mest nauðgaða lag íslenskra útvarpsstöðva fyrr og síðar, Killing in the Name of, og mér fannst það ekki réttlæta ferð á tónleika. Hægt að kveikja á varpinu í staðinn og stilla á X-ið sem var með þetta á repeat í tæpt ár. Sé náttúrulega hrikalega eftir því núna að hafa ekki skellt mér, ég var meira að segja í teiti rétt hjá sama kvöld, hjá henni Bryndísi á Breiðvanginum, heitkonu Andra vinar míns. Gott ef lætin úr krikanum heyrðust ekki glöggt yfir.
Svona er þetta, maður getur ekki farið á alla viðburði (segi ég sem dregst í bíó ársfjórðungslega). Þó er einn viðburður núna í apríl, nánar tiltekið föstudaginn 13. apríl, sem ég ætla mér ekki að missa af en þar eru á ferð tónleikar Scooter og Haddaway sem fara einmitt einnig fram á Sørmarka Arena. Það vita náttúrulega allir sem til þekkja að þessir einstaklingar eru engan veginn fulltrúar tónlistarstefna sem ég læt mig miklu varða. Það eru minningarnar sem þarna ráða för. Ég bara bókstaflega verð að drekka mig pöddufullan og sjá gamla Haddaway taka stafnlíkneski allra slagara tíunda áratugar síðustu aldar, What is Love. Það er bara eitthvað við þá upplifun sem verður ekki sleppt. Svo er þetta hérna rétt hjá.
Ég verð þá laus við það, þegar Haddaway hrekkur upp af, að skrifa tárvotan pistil um að ég hafi aldrei séð hann á tónleikum. Ég óttast líka að Kim Larsen muni hugsanlega deyja án þess að hafa haft mig á tónleikum hjá sér. Það yrði frekar sorglegt þar sem ég hef lúmskt gaman af honum og hef auk þess fengið tvö mjög góð tækifæri. Hann spilaði í Sandnes Kulturhus í ágúst í fyrra en ég ákvað að vera frekar að vinna. Einnig kom hann til Íslands í september 1988 og Ellen Svavarsdóttir, dönskukennari við Garðaskóla, dró allan bekkinn á tónleikana, mjög impóneruð. Nema mig. Ég skrópaði og fór í bíó að sjá Foxtrott með Maríu Ellingsen og Valdimari Erni Flygenring. Svona eru örlögin.