Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru eins og veðurfréttir í samanburði við Arne Treholt-málið sem enn lifir góðu lífi hérna í Noregi en ég hlustaði á fréttaflutning af þessu máli þegar ég var tíu ára á Íslandi. Málið snerist (og snýst enn) um meintar njósnir Arne Treholt, háttsetts embættismanns í norska utanríkisráðuneytinu, fyrir Sovétmenn. Í fyrra kom bókin Forfalskningen út hér í Noregi en þar var flett ofan því að norska lögreglan hefði falsað sönnunargögn í máli Treholt. Nú hafa breskir rannsóknaraðilar, að sögn Aftenposten, hnekkt dönskum og sænskum rannsóknum sem áður áttu að nægja til að sanna sekt Treholt endanlega. (MYND: Hin rómaða leigubílamynd./PST)
Ákæran byggðist meðal annars á skjalatösku sem átti að hafa verið full af dollaraseðlum. Lögreglan sagði að Treholt hefði fengið peningana fyrir að veita sovéskum og íröskum leyniþjónustumönnum upplýsingar. Hún sagði enn fremur að skjalataskan hefði fundist við leynilega leit í íbúð Treholt áður en hann var handtekinn. Höfundar bókarinnar segjast hafa fundið sannanir fyrir því að ljósmyndir, sem lögreglan tók af töskunni, hafi í raun allar verið teknar eftir að Treholt var handtekinn. Þetta átti svo allt að lokum að standa og falla með því hvort leifar af límbandi væru sjáanlegar á töskunni eður ei á frægri mynd sem tekin var af Treholt þegar hann settist inn í leigubíl í Ósló. Límbandsleifar voru á tösku sem átti að hafa fundist og verið mynduð við rannsóknina á íbúð Treholt og sömu leifar sáust á tösku sem lögreglumyndir birtust af eftir handtökuna. Í fljótu bragði sést hins vegar ekkert límband á myndinni af Treholt með töskuna en hún var tekin rétt fyrir handtökuna, á tímabilinu milli þess sem myndirnar í húsleitinni og myndirnar á lögreglustöðinni eftir handtöku voru teknar.
Breska rannsóknin hefur hnekkt áðurnefndu áliti danskra og sænskra rannsóknaraðila á límbandsleifunum en hugsanleg endurupptaka máls Treholt snýst öll um það hvort taskan með límbandsleifunum var leikmunur lögreglu allan tímann og aldrei í vörslu Treholt eður ei. Um þetta snýst einnig starfsemi heillar endurupptökunefndar sem heitir að sjálfsögðu Gjenopptagelseskommisjonen, við skulum ekki einfalda þetta neitt.
Bresku rannsóknaraðilarnir, LGC Forensics, halda því nú fram að þau rök rannsakenda danska ríkislögreglustjórans og Statens kriminaltekniska laboratorium í Svíþjóð, að Treholt haldi töskunni þannig á myndinni að hugsanlegar límbandsleifar sjáist ekki, haldi engu vatni. Leifarnar hlytu að sjást eins og hann heldur töskunni á myndinni. Treholt-áhugamenn mega því ef til vill búa sig undir endurupptöku og nýja niðurstöðu en kallinn sat inni átta ár af 20 ára dómi áður en hann var náðaður en þá flutti hann rakleiðis til Rússlands en býr nú á Kýpur. Eins má geta þess að Treholt greiddi fyrir bresku rannsóknina en rannsókn er rannsókn. Kannski ég fari bara að rannsaka Treholt-málið í frístundum.