Fréttir af lögsókn Hells Angels á Íslandi á hendur Ögmundi Jónassyni, Haraldi Johannessen og íslenska ríkinu fara víðar en um íslenska miðla og í dag birtir vefútgáfa Stavanger Aftenblad þessa stuttu frétt um málið. Sennilega er það engin tilviljun þar sem Stavanger-armur englanna hefur verið mikið í fréttum næstliðna daga, einkum hjá Rogalands Avis hverjum ekkert mannlegt er óviðkomandi.
Þar hefur talsmaður Vítisengla í Stavanger, Øyvind Våge, farið mikinn en þeir hafa nýlega skrifað dómsmálaráðuneyti Noregs og krafist upplýsinga um öll gögn sem KRIPOS, sérfræðideild norsku lögreglunnar um skipulagða glæpastarfsemi, hefur undir höndum um einstaka Vítisengla í Noregi en Øyvind telur að lögreglan beiti áróðursstarfsemi, lygum og skreyttri tölfræði um afbrotaferil klúbbfélaga og saumi óeðlilega að þeim á ýmsum vettvangi, svo sem með smásmugulegu eftirliti fyrir utan klúbbhús Hells Angels í Braut, sem er hérna rétt hjá, þegar þar fara fram samkomur eða afmæli félagsmanna. Lögreglan kemur sér þá gjarnan fyrir við húsið og krefur alla gesti um skilríki og heldur svo skrá yfir þá sem teitina sækja. Þessir aðilar finnast svo væntanlega í framtíðinni á skrá yfir aðila sem hafa tengsl við HA í Stavanger þar sem þeir hafa sótt þar veislur. Einstaklega norskur hugsunarháttur verð ég að segja.
Þeir eru sem sagt örlítið umdeildari en Kvenfélag Akraness hér rétt eins og á Íslandi en þó eru félagar í Stavanger-deild Hells Angels aðeins 13 og félagar í öllum Noregi rétt rúmlega 100. Norðmenn ná sennilega fimm milljónum á næsta ári og heil 0,002 prósent þeirra eru félagar í Hells Angels. Þetta er ámóta áhyggjuefni og að 72 milljónir Íslendinga muni búa í Noregi árið 2051 ef fer sem horfir með fjölgun þeirra hér og sett var fram í þessari skemmtilegu grein Sigve Indregard í Morgenbladet nú í september.