Umræða um engla hefur verið ofarlega á baugi í fjölmiðlum undanfarna daga. Ef ekki er verið að ræða um væntanlegan Vítisenglaklúbb hefur iðnaðarráðuneytið kastað fram tillögum um glænýjan fjárfestingasjóð fyrir svokallaða viðskiptaengla, sbr. fréttir Ríkisútvarpsins í kvöld.
Vítisenglaumræðan hefur þó verið meira áberandi. Eins og áður einkennist hún af því að yfirvöld landsins virðast hafa gefið sér það sem staðreynd að um leið og Einar Marteinsson og félagar í klúbbnum sem nú heitir MC Iceland fái leyfi til að kalla sig Vítisengla breytist þeir í blóðþyrsta morðvarga og varmenni. Sigríður, lögreglustjóri Suðurnesja, er ómyrk í máli og lætur hafa þetta eftir sér í DV á miðvikudag: ‘Okkur líst ekki á þessi samtök og bendum á að erlendir meðlimir þessara samtaka eru harðsvíraðir. […]’
Ekki vantar málefnaleg rök í þessa umræðu. Sigríði líst ekki á samtökin og rökstyður það með því að félagar þeirra séu harðsvíraðir. Er Íslandsdeildin þá ekki harðsvíruð en verður það skyndilega við inngönguna? Er sá eiginleiki að vera harðsvíraður almennt talinn refsiverður?
Mikið er rætt um að Vítisenglar séu skipulögð glæpasamtök og uppvöxt slíkra samtaka hér beri að stöðva með öllum ráðum. Telst það ekki frekar kostur en hitt ef menn eru skipulagðir? Værum við ekki í mun verri málum með glæpasamtök sem ofan í kaupið væru óskipulögð? Hér á landi starfa nú þegar nokkur skipulögð glæpasamtök þótt nokkur þeirra séu reyndar farin á hausinn, til að mynda Landsbankinn og Frjálsi fjárfestingarbankinn. Ekki varð ég var við að gestum þeirra og fleiri áþekkra stofnana væri vísað öfugum úr landi við heimsóknir hingað. Þvert á móti þágu þeir gull, reykelsi og mirru sem reyndist að flestu eða öllu leyti á kostnað almennings hér á landi, í Bretlandi og Hollandi.
Nú er lag fyrir Vítisenglana, þegar þar að kemur að þeir megi kalla sig það hér á landi, að taka sér einfaldlega heitið Viðskiptaenglar og dýfa sér í digra sjóði styrkjahöfðingjans í iðnaðarráðuneytinu. Erlendir félagar Hells Angels skilja hvort eð er ekki íslensku og vita ekkert um muninn á englum vítis eða viðskipta. Atburðir nýliðinna ára hafa auk þess sýnt okkur að skammt getur verið milli þessara hugtaka og snjallasta viðskiptahugmynd Landsbankans varð þjóðinni einmitt víti…vonandi til varnaðar.