Engar smáræðis veðurfréttir

eldingFull ástæða er til að vekja athygli á síðu Öldu Sigmundsdóttur, sjálfstætt starfandi blaðamanns, The Iceland Weather Report. Það er þó ekki veðurfar landsins sem þar er til umræðu heldur staða efnahagsmála hér, hruntíðindi og útskýringar á bágri stöðu þjóðar í vanda fyrir erlenda lesendur. Allt er þetta svo í bland við léttara efni og úr verður að mínu mati mjög frambærileg og upplýsandi síða.

Ekki skemmir að Alda er vel pennafær á engilsaxnesku eftir margra ára búsetu í Kanada og Bretlandi og er því fær um að matreiða upplýsingarnar með hárréttum kjarnhita ofan í lesendur handan hafsins. Ekki er vanþörf á slíku, ég hef sjálfur hljómað ískyggilega í eyrum erlendra blaðamanna þegar ég reyni að útskýra fyrir þeim verðtryggingu og önnur séríslensk fyrirbæri. Alltaf spyrja þeir þó að lokum hvernig okkur detti í hug að láta bjóða okkur upp á þetta svo merkingin kemst augljóslega til skila.

Iceland Weather Report á fullt erindi til íslenskra sem erlendra lesenda og er ágæt upphitun fyrir það erlenda fjölmiðlafólk sem hingað mun streyma til að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars, þ.e. ef herforingjastjórninni tekst ekki með einhverju móti að blása hana af áður en sá dagur rennur.

Athugasemdir

athugasemdir