Ég taldi mig þokkalega harðan í endurvinnslumálum á Íslandi bara við að fara með dagblöð í sérstakan dagblaðagám á Sorpu. Hér í Noregi er endurvinnsla nánast listgrein. Meðfylgjandi mynd sýnir sorptunnurnar þrjár sem prýða hvert norskt heimili. Þeir eru ekkert að grínast með þetta. Í grænu tunnuna fer allur pappír og pappi, í þá brúnu matarafgangar (án allra umbúða!) og það litla sorp sem þá er eftir og kallast restavfall eða vanlig søppel fer í svörtu tunnuna. Ég henti ónýtum sokkum í þá svörtu áðan og bíð nú milli vonar og ótta eftir kvörtun frá IVAR hafi þetta verið röng greining hjá mér. (MYND: Sorptunnur við norskt heimili, þó ekki okkar. Menn geta ímyndað sér hvað fólk hugsaði sem sá til mín hlaupandi um að mynda sorp nágrannanna.)
IVAR er Sorpa hér í Rogaland, frábært nafn á Sorpu og með því færi ég Ívari Erni Hansen kokki kærar kveðjur. Ívar, þú ert Sorpa í Noregi, ha ha!
Í eldhúsinu eru svo gjarnan smærri fötur í samsvarandi litum til að auðvelda flokkunina, matartunnan með vel þéttu loki sem betur fer enda kviknar ýmiss konar líf þar tiltölulega fljótlega. Lyktin er eftir því.
Í gær var haldin gríðarleg drykkja hjá Ella og fjölskyldu þar sem nýjar rækjur, brauð og hvítvín voru á borðum. Gin & tónikk var auðvitað ekki langt undan enda veður gott og drykkja á pallinum nánast skylda. Þarna hittust um það bil 10 Íslendingar og hafa sumir þeirra verið búsettir hér í allt að níu ár. Ekki eru því allir á kreppuflótta en þó ljóst að enginn úr þessum hópi er á leið til gamla landsins aftur í bráð.
Á morgun fagna Norðmenn þjóðhátíðardegi sínum og minnast fyrstu stjórnarskrár sinnar sem var undirrituð á Eiðsvöllum og tók gildi 17. maí 1814. Þjóðbúningar, eða bunad, eru órjúfanlegur hluti hátíðarhaldanna og gríðarmikið lagt upp úr þeim. Hvert einasta smáþorp um allt land er með eigin útfærslu af búningnum þótt yfirleitt sé um sameiginleg grunnstef að ræða. Maður getur varla líkt þessu við neitt á Íslandi, yfirleitt sér maður engan í skautbúningi 17. júní nema fjallkonuna. Það er ekkert grín að koma sér upp ósviknum bunad, algengt verð á slíkri múnderingu á fullorðinn einstakling er 16.000 norskar krónur, rúmlega 330.000 íslenskar. Ég ætla að minnsta kosti að láta gallabuxurnar duga á morgun. (MYND: Íslendingar. Myndum við ekki skera okkur úr hvar sem er í sólkerfinu?)
Ég harma brotthvarf félaga míns og fyrrum yfirmanns, Óskars Hrafns Þorvaldssonar, úr stóli fréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis. Helst koma mér í hug eftirmæli Ingólfs Arnarsonar um Hjörleif fóstbróður sinn: ‘Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng er þrælar skyldu að bana verða, og sé ég svo hverjum verða ef eigi vill blóta.’ Í þessu síðasta felst þó engin hótun af minni hendi, ég kann bara betur við að hafa tilvitnunina alla. Óskar er toppmaður, naskur fréttamaður og síðast en ekki síst prýðilegur yfirmaður, þetta fer ekki alltaf saman. Einhverjir fyrrum starfsmenn fréttastofunnar kunna að vera mér ósammála og hafa tjáð sig um það í fjölmiðlum síðustu misseri en ég tjái víst bara eigin skoðanir hér.
Netmál mín eru komin í lag. Ég fór í ELKO í gær (reyndar Elkjøp hérna) og var þar tjáð að netkortið mitt, sem er frá 2001 eða ’02, væri betur geymt á þjóðminjasafni en í tölvunni. Löngu væri hætt að framleiða slík kort og mín eina von með tölvu frá 2003 væri að tengjast lýðnetinu með USB-netkorti eða svonefndum pungi sem fékkst á 379 krónur norskar. Þennan búnað virkjaði ég áðan svo hér geta lesendur skemmt sér við að lesa fyrsta pistilinn sem ég skrifa með pungnum.
Ég ætlaði svo sem aldrei að hafa þetta neina myndasíðu og hef í yfirgnæfandi meirihluta tilfella haldið mig við eina mynd á hvern pistil. Ég get þó ekki stillt mig um að búa svo um hnútana að lesendur átti sig aðeins á umhverfi mínu svo ég slæ botninn í þetta með tveimur myndum af götunni sem við búum við og húsinu. Dyrnar sem glittir í á seinni myndinni eru að íbúðinni okkar sem er í raun frekar á jarðhæð en í kjallara, hún er ekkert niðurgrafin. Hérna verðum við í sumar og leigjum geymslu undir búslóðina. Í september bíður okkar svo það erfiða verkefni að finna út hvar okkur langar að vera til frambúðar og troða búslóðinni þangað inn með manni og mús. Okkur sýnist stefna í að við reynum að vera í nágrenni við miðbæ Stafangurs, fyrrverandi 101-rottum finnst gott að geta rölt niður í miðbæ. Annars eru samgöngur hérna með ágætum og lítið mál að komast út um allt með lestum og strætisvögnum.