Endurfundir aldarinnar

pa030141Jæja, það er óhætt að segja að laugardagskvöldið hafi verið gjörsamlega ógleymanlegt (þrátt fyrir að ég muni nú kannski ekki allt sem gerðist). Tuttugu ára afmælið okkar garðskælinga tókst algjörlega óaðfinnanlega og það var algjörlega ljóst að andinn í mannskapnum var til staðar sem aldrei fyrr. Endurfundanefnd tæklaði verkefni sitt nokkuð vel enda hafði hún fundað stíft síðan í ágúst. Vel má viðhafa ummæli Winstons Churchill forsætisráðherra um orrustuna um Bretland þegar laugardagurinn er rifjaður upp:



Aldrei hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka.



Er þar auðvitað átt við fjórmenningana í nefndinni gagnvart árganginum í heild sinni. Jæja, OK, þetta var nú bara mont. (MYND: Endurfundanefnd 2009: F.v. Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, Guðrún Fjóla Guðnadóttir, Atli Steinn Guðmundsson og Auður Edda Geirsdóttir.)

Ég vaknaði í glampandi sólskini á laugardaginn, ólmur af eftirvæntingu. Ferð í Bónus og ríkið var farin á föstudaginn og hreinsað út þar fyrir 40.000 krónur. Sama dag voru þrif framkvæmd og flestum undirbúningi lokið. Laugardagurinn var því bara þægilegur. Snakkskálum stillt upp, nachos- og brauðréttir undirbúnir og fordrykkurinn kældur.

Maður dagsins var Sigurður Helgi Hlöðversson sem annast áhrifamesta dagskrárlið íslenskra fjölmiðla, þáttinn



Veistu hver ég var?



Siggi var ekki lengi að samþykkja að peppa 20 ára afmælið okkar alveg í tætlur og gerði það eins og sannur heiðursmaður. Hann lék nokkur lög tileinkuð árganginum og endaði þetta á fínu spjalli við mig um klukkan fimm sem sannarlega gerði stormandi lukku. Áður höfðu verðandi gestir verið áminntir á Facebook um að missa alls ekki af þættinum þennan dag (sem ekkert okkar gerir hvort sem er að jafnaði enda vandfundinn heppilegri markhópur fyrir Sigga en fólk sem lagði stund á gagnfræðanám árin 1986 – 1989).

Húsið opnaði klukkan 18 með ísköldu freyðivíni og ljúfum tónum gæludýrabúðapiltanna bresku í Pet Shop Boys. Nefndin var mætt klukkan 16:57 (átti að vera 16:30 en Hólmsteinn Gauti Sigurðsson og tími eiga enga samleið).

Kvenpeningurinn hóf þarna geysimikla eldamennsku og allt small nokkurn veginn á réttum tíma. Fyrsti gesturinn reyndist vera engin önnur en helsti fulltrúi rauðhærðra í árganginum, Erla Gunnarsdóttir, nú búsett á Akranesi en þó fyrst á vettvang. Lét hún ekki sitt eftir liggja að demba sér í veigarnar eftir að hafa fært húsráðendum forláta rauðvínsflösku að gjöf sem kom heldur betur í góðar þarfir sem afréttari dagsins eftir.
pa030155

Dreif nú menn að í tugavís og varð andrúmsloftið brátt lævi blandið. Húsráðandi átti fullt í fangi með að rífa upp hverja freyðivínsflöskuna á fætur annarri og munaði minnstu að nokkrir hefðu verið skotnir til bana með korktöppum sem þutu á hálfum ljóshraða um stofuna. En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó (nema kannski áfengisdauða). (MYND: Erla



rauða



Gunnarsdóttir, fyrst á vettvang.)

Klukkan 20 mætti leynigesturinn sem ekki fór lítið púður í að skipuleggja. Var það enginn annar en Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrverandi skólameistari, sem óhætt er að segja að hafi sent bæði Eddie Murphy og Andrew Dice Clay grátandi til föðurhúsanna. Það erfiðasta var að koma Gunnlaugi óséðum að húsinu, láta Hólmstein sækja hann út og fyrir mig að reikna út þann hluta undirbúningsræðunnar þegar kominn var tími til að svipta hulunni af gestinum en ég sá þá engan veginn fyrir myrkri hvort Gunnlaugur og Hólmsteinn væru búnir að koma sér fyrir á réttum stað úti á palli.

Allt gekk þetta þó upp eins og best var á kosið og hinn aldni höfðingi gekk í salinn undir ekki minna lófataki en hefði sjálfur Michael Jackson risið úr gröf sinni og moonwalkað inn í stofu hjá mér.

pa030149Ræða Gunnlaugs var kapítuli út af fyrir sig. Til að gera langa sögu stutta var fáum hlíft og bekkjarmálning, ömurleg frammistaða Davíðs Torfa sem plötusnúðar og knattspyrnudraumar Kristins Inga gerðir að yrkisefnum. Hápunktur skammarinnar var þegar Gunnlaugur afhenti undirrituðum líkan af svörtum bekk, bleikmáluðum, og játaði skýlaust að honum hefði reyndar á sínum tíma þótt tiltækið bráðfyndið. Hann gat bara ekki játað það í nóvember 1988. Lái honum hver sem vill. (MYND: Gunnlaugur sýnir að hann hefur engu gleymt í pontunni.)

Næsti hápunktur kvöldsins var mæting Lárusar Freys Jónssonar sem þurfti um það bil fimm símtöl til að rata á Leirutanga 2. Að lokum birtist hann þó og tók til göróttra drykkja sem enginn væri morgundagurinn.

Síðustu menn yfirgáfu samkvæmið á fjórða tímanum um nóttina, um óttubil eins og það hét í hinu forna tímatali þegar sólarhringnum var skipt í átta eyktir. Undirritaður horfði yfir haf tómra bjórdósa og áfengisflaskna og komst upp úr því naumlega í rúm sitt þar sem hefðbundið andlát fór fram í fullum skrúða. Hamingjubros á andliti.
pa030154

Endurfundanefnd 2009 gerðist svo djörf að skipa endurfundanefnd 2014. Hana skipa Guðbrandur Benediktsson, Ásta Sveinsdóttir, Kristinn Ingi Lárusson og Ingibjörg Sigfúsdóttir. Megi almættið blása þeim í brjóst hugmyndum sem nálgast það að toppa laugardaginn 3. október 2009. Jæja, þau hafa nú fimm ár til þess að skipuleggja það. (MYND: Gunnar Sigurður Guðmundsson talar nú með amerískum hreim og starfrækir hundaviðrunarþjónustu í New York. Nýsköpunarsjóður hlýtur að styrkja þetta!)

Að lokum þakka ég undirbúningsnefnd, árganginum, leynigesti og nágranna mínum, Ólafi Gíslasyni íþróttakennara, sem ég hafði ekki grænan grun um að væri nágranni minn en var sóttur í næsta hús og færður til gleðinnar. Þeir Sveinn Geirsson eiga það sameiginlegt að þeir stækka lítið hvað sem árunum fjölgar. (MYND: Óli Gísla nágranni minn hefur gránað aðeins en það væri synd að segja að hann hefði stækkað.)
pa030150

Fjölskylda mín úr Garðaskóla 1986 – 1989, þakka ykkur fyrir ógleymanlegt kvöld. Ég get ekki beðið eftir að hitta ykkur á aldarfjórðungsafmælinu 2014.

Þessir hafa orðið sér úti um sérstakar viðurkenningar eða vítur á nýafstöðnum endurfundum:

Aðalmaðurinn á svæðinu: Ég
Fyrsti gesturinn: Erla rauða
Ölvaðasti gesturinn: Lárus Freyr Jónsson
Minnsti gesturinn: Auður Edda og Sveinn Geirsbörn (eftir harða samkeppni við Óla Gísla)
Skammarverðlaunin: Davíð Torfi Ólafsson (fyrir að mæta ekki!)
Stórreykingamaður dagsins: Högni Gunnarsson
Frumlegasta starfið: Gunni Sig. (Dog Walking Service í New York)
Afmælisbörnin: Linda Bára og Hanna Björk
Ræða dauðans: Gunnlaugur Sigurðsson
Elsti maður á svæðinu: Hann líka
Yngsta manneskja á svæðinu: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Mesta skutlan eftir öll þessi ár: Ragnheiður Gunnarsdóttir
Mest saknað: Sigurður



Sambi



Sigurðsson
Besta trúnóið: Magnea Ólafsdóttir og ég
Flestu freknurnar: Bára Eyland Garðarsdóttir
Kom mest á óvart með mætingu sinni: Sveinn Geirsson
Tók flestu myndirnar: Hilmar Brjánn Sigurðsson
Spurði oftast hvar næsta klósett væri: Róbert Björnsson
Fór síðast: Annaðhvort Siggi P. eða Robbi Kristmunds (þarna var mér aðeins farið að förlast)
Besti árgangur heims: Garðaskóli 1989

 

 

pa060159

(MYND: Viðurkenning frá Gunnlaugi, bleikmálaður svartur bekkur. Loksins játaði hann að honum fannst þetta æðislega fyndið – það tók ekki nema 20 ár að knýja þá játningu fram.)

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir