Endurfæðing í stálinu

kreatndollaÞau tímamót hafa orðið í lífi mínu að ég hef hafist handa við að gera tilraunir á sjálfum mér með kreatíninu Horse Power frá Ultimate Nutrition. Snillingurinn hann Ægir í Vaxtarvörum selur þetta eins og heitar lummur og skyldi engan undra. Ægir var búinn að geta þess við mig að ég kæmist vafalítið í einkennilegt ástand við notkun Horse Power. Mig grunaði hins vegar ekki að ég sæi inn í önnur sólkerfi. Fyrsti skammturinn var tekinn inn 20 mínútum fyrir æfingu í morgun. Byrjunareinkenni eru heiftarlegur kláði með náladofa. Hafi einhver sem þetta les reynt kláðamaur á eigin skinni byrjar Horse Power svipað. Eftir það missti ég nánast minnið og rankaði við mér úti í Laugardalslaug eftir að hafa nánast fært World Class í Laugum úr stað.

Það er alveg rétt sem segir í auglýsingunni með Horse Power: Farðu úr fötunum áður en þú prófar! Mig grunar sterklega að fyrsta metamfetamínkreatínið hafi nú litið dagsins ljós. Mín eina reynsla í fæðubótarefnum sem kemst nálægt þessu er þegar ég tók fyrst inn Twinlab-kreatín á útmánuðum 1995. Það reif hressilega í en ekkert í líkingu við hestaflið frá Ultimate Nutrition! Annars er minn mælikvarði á gæði kreatíns yfirleitt einfaldur: Fæ ég pípandi niðurgang af því eða ekki? Ekki niðurgangur táknar gæðaefni og Horse Power fellur í þann flokkinn.

Fyrst ég er að tala um Ægi og Vaxtarvörur ætla ég að birta hérna að gamni mínu smásögu sem hafnaði í fyrsta sæti í smásagnasamkeppni sem nefndur Ægir efndi einmitt til á vef sínum, Vaxtarvörur, undir heitinu ‘Vandræðalegasta augnablikið í ræktinni’. Hún fjallar einmitt um niðurgang og tengd atriði. Hnjóti einhver um vísanir í útrás viðskiptalífsins er athygli vakin á því að sagan var skráð 30. mars 2007, meðan allt lék í lyndi.

Skiturnar þrjár
Það bar til eitt fagurt mánudagshádegi að vori að ég heimsótti unaðsreitinn Laugar í samnefndum dal hér í borginni. Ekki þykir sú heimsókn sem slík mjög í frásögur færandi enda er ég tíður gestur hjá Birni Leifssyni og hef verið allar götur síðan 1991. Ég hafði, er saga þessi gerist, nýlega tekið til við að hlaupa á þar til gerðu bretti á undan lyftingum, bæði til upphitunar og eins til að auka mér almennt þol og úthald. Þykir mér það hvimleið iðja og leiðinleg að hlaupa sem tilraunadýr eftir færibandi en hvað leggur nútímamaðurinn ekki á sig fyrir fagran limaburð og almenna hreysti bæði hið innra og hið ytra?

Saga þessi snýr reyndar að nokkru leyti að hinu innra. Helgina á undan téðum mánudegi hafði ég gert mér leik að því að sturta ofan í mig brennivíni enda þykir mér sú iðja góð og til margra hluta nytsamleg. Höfðu iður mín við þetta gengið nokkuð úr skorðum þótt vön megi teljast. Varð ég þessa fljótt áskynja eftir að ég hóf hlaup mín á brettinu en áður en ég kæmist svo mikið sem 300 álnir skv. mæli brettisins finn ég snarpan sting neðarlega í kvið og um leið er óþyrmilega vegið að hringvöðva mínum, þeim er hefur með höndum almenna dyravörslu þarma.

Á sekúndum átta ég mig á þeirri staðreynd að þessum útrásarher var jafnmikil alvara og þeim er herjar á erlendar viðskiptalendur. Var nú ekki lengur spurning um að harka af sér þar til óþægindin liðu hjá heldur blasti þessi spurning við: Næ ég postulíninu í tíma?!? Nú hófst annað og mun skelfilegra hlaup en það sem átt hafði sér stað á brettinu en það var hlaupið að salerninu í vesturenda æfingasalarins og gerði það hlaupið allt erfiðara að hringvöðvinn var krepptur til hins ýtrasta enda varð það svo þegar upp var staðið að í honum urðu mestar harðsperrur eftir þessa æfingu.

Sá ég ævi mína nú þjóta mér fyrir hugskotssjónum en um leið flugu þar hugsanir um þá ógn er biði mín ef salernið reyndist upptekið, því að ég fann að hér myndu jafnvel brot úr sekúndu skilja milli feigs og ófeigs. Sjaldan hefur feginleiki minn verið jafn því er varð er ég reif í hurðarhúninn og fann hurðina gefa eftir í öllu sínu veldi. Við blasti sú sjón er mér þá þótti hin fegursta sem augu mín höfðu litið: Skjannahvítt og gljáandi salerni af erlendum uppruna, tengt gólfi með voldugri lögn er nú skyldi fá ærinn starfa.

Varpaði ég niður buxnastreng mínum og kastaði mér að salerninu með snúningshreyfingu sem ég gæti ekki framkvæmt aftur þótt líf milljóna lægi við. Það stóðst á endum að samruni minn við kalt postulínið varð að raunveruleika og öflugar varnir hringvöðva míns brustu með hljómkviðu sem enn vitjar mín í draumum. Sælutilfinningin var ólýsanleg er voldug aurskriða, snúin göldrum göróttra drykkja helgarinnar, skreið með hraða ljóssins um hvítar hlíðar innanverðs salernisins er nú tók við sem aldrei fyrr. Dvaldi ég þar lengi hádegis og gekk út á ný fölur og kaldsveittur…en sæll. Leit ég þá augum alla þá hjörð líkamsræktarfólks sem aldrei vissi hve nálægt það komst skelfilegum dauðdaga efnavopna þetta hádegi í maí 2006 og minntist þá frægra orða Winston Churchill forsætisráðherra eftir orrustuna um Bretland: Aldrei hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka.

Athugasemdir

athugasemdir