Endur fyrir löngu

esjanVið vorum að grufla í gömlum myndum í kvöld. Þar á meðal var þessi frá því að við gengum á Esjuna í ágúst 2008, þá búsett í Mosfellsbæ. Hverfið okkar sést meira að segja í baksýn. Manni virðist ótrúlega langt um liðið miðað við alla atburðarásina sem runnið hefur í gegn síðan þetta var. Þarna var ég nýkominn úr brjósklosskurðaðgerð númer tvö og var að byrja í MA-námi vikuna á eftir. Sama námi og ég lauk í fyrra, sekúndum áður en við fluttum til Noregs.

Þetta er örstuttur tími samt sem áður. En breytingarnar á innan við þremur árum eru þær mestu sem ég hef upplifað. Þessi mynd er tekin sennilega fimm vikum áður en Glitnir féll í lok september. Þá var ég blaðamaður á Vísi, nýbyrjaður í MA-námi í blaðamennsku og hafði brugðið mér úr vinnu uppi í 365 á fyrirlestur í vinnubrögðum og siðareglum blaðamanna hjá honum Friðrik Þór Guðmundssyni frænda mínum, alias Lilló, vestur í Háskóla.

Þegar ég kom til baka sagði Björn Gíslason, fréttastjóri á Vísi og fyrrum skólabróðir úr íslensku og hagnýtri fjölmiðlun, við mig: ‘Þú mátt ekki bregða þér í skólann, Atli, og þá er Glitnir þjóðnýttur á meðan.’ Það voru mínar fyrstu fréttir af hruninu. Svo komu dagarnir á eftir, Landsbankinn og því næst Kaupþing…og svo allt sem kom í kjölfarið. Mér finnst þetta hafa gerst fyrir öld en það er örstutt síðan.

Athugasemdir

athugasemdir