Eitt ár á vinnumarkaði og gjaldeyrisútrýmingarbúðir Alþingis

men at workÞað líður varla sá dagurinn að ekki séu einhver merkistímamót. Fyrir þremur vikum fögnuðum við eins árs búsetu í Noregi, í fyrradag var ég reyklaus í 11 ár og í dag, 31. maí, er eitt ár frá því að þátttaka okkar á norskum vinnumarkaði hófst og sér langt í frá fyrir endann á henni. Þessi dagur í fyrra var markaður nettri blöndu spennu og kvíða, sérstaklega hjá mér sem hafði nú ekki handleikið moppu og alls konar ræstingagræjur mikið meira en ég bráðnauðsynlega þurfti um ævina. Og þó…

Þá vorum við rúma viku að læra að rata það bráðnauðsynlegasta í þessu 160.000 fermetra spítalaskrímsli og eins og ég hef ritað áður var Stavanger-mállýskan sem einhvers konar flæmska eða jiddíska í eyrum okkar. Nú, ári seinna, erum við farin að taka verstu ósiðina upp úr henni sjálf. Kúfor issje? [Stavanger-framburður á hvorfor ikke?]

Gjaldeyrishaftafrumvarpið nýja er galið og ekkert annað. Er verið að leggja þetta fram á Alþingi? Ég er eiginlega gáttaður á að þarna sé bara verið að lögfesta reglur sem Seðlabankinn hafði þegar sett. Ég hafði bara ekki haft neina sérstaka ástæðu til að kynna mér reglurnar að ráði þar sem ég telst erlendur aðili í skjóli lögheimilis hér og því undanþeginn höftunum. Vissi bara að þær eru afturhvarf til haftaáranna frægu sem ég man vel eftir og skrifaði meðal annars þessa minningargrein um hér á síðunni (vísa einkum til síðari hluta hennar).gjaldeyrishoft

Vísir birtir viðtal við Finn Oddsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, sem bendir meðal annars á þá merkilegu þversögn að öllum afgangsgjaldeyri verði að skila, að viðlagðri refsiábyrgð, og þá væntanlega þar með töldu klinki en fjármálastofnanirnar taki ekki við klinki svo eigandi gjaldeyrisins í slíku tilfelli geti aldrei annað en brotið lögin. Eins ætla ég nú bara hreinlega að birta hérna klausu úr umsögn Neytendasamtakanna um frumvarpið sem hún Hildigunnur Hafsteinsdóttir vinkona mín er annar höfundurinn að.

Skilaskylda á ferðamannagjaldeyri sem þessum er óháð þeirri upphæð sem um ræðir hverju sinni. Þannig er ljóst að einstaklingi ber að skila 5 evrum, og minna ef svo ber undir, til fjármálafyrirtækis ef hann hefur ekki getað notað þær erlendis. Þessi skilaskylda er fortakslaus enda er ekkert lágmark að finna í ákvæðinu. Ef einstaklingur hyggur því á aðra ferð þremur vikum síðar er honum ekki heimilt að geyma 5 evrurnar þangað til enda þarf hann að skila þeim til fjármálafyrirtækis innan tveggja vikna frá heimkomu. Neytendasamtökin gerðu litla könnun á því hvað það kostar að kaupa 100 evrur hjá fjármálafyrirtæki og á hvaða verði fjármálafyrirtæki kaupa 100 evrur til baka af einstaklingi. Algengt er að um 5% munur sé á kaup- og sölugengi fjármálafyrirtækjanna á gjaldeyri. Ákvæðið leggur því þá skyldu á einstakling að hann selji fjármálafyrirtæki gjaldeyri á lægra verði en hann keypti hann, að viðlagðri refsingu. Fyrir einstakling sem ferðast mikið erlendis getur verið um töluverðar upphæðir að ræða á ársgrundvelli sem viðkomandi verður af verði frumvarpið að lögum. Mismunurinn endar síðan í vasa fjármálafyrirtækja fyrir tilstuðlan löggjafans.

Hér má lesa álitið í heild sinni. Og hér má lesa mitt álit: Þetta er klikkun. Segi það og skrifa.

Athugasemdir

athugasemdir