Vegna fjölda áskorana svipti ég hér með blóði drifinni hulunni af vinnustað mínum. Ég kippti myndavélinni með á föstudaginn og hér með birtist yður lesendum mínum dauði norsks búfjár eins og hann gerist hvað öfgafengnastur, allt að 10.000 dýr á viku. Þetta hefur verið með lærdómsríkari stöðum sem ég hef gegnt, auk þess að læra að greina á milli innyfla fórnardýra hef ég lært töluvert mikið í pólsku, slóvösku og írönsku, mest þó í pólsku en í síðustu viku tókst mér í fyrsta skipti að halda uppi 30 sekúndna samræðum á því tungumáli. Viðmælandi minn, sem þekkti mig ekki, giskaði á að ég væri frá Tékklandi svo ljóst er að ég hef tileinkað mér austurevrópskan framburð. (MYND: Þúsund svín á færibandinu þokast nær.)
Pólverjinn Robert Sumera á heiðurinn af minni lélegu pólsku. Hann talar hvorki ensku né norsku en konan hans sem starfar hjá matvælaeftirlitinu (n. Mattilsynet) útvegaði honum starf hjá Nortura. Robert stimplar nýdauð lömb daglangt með stimplinum Norge 111 EFTA sem er vottorð þess að um evrópska upprunavöru sé að ræða. Robert talar þokkalega þýsku eftir að hafa starfað á pólsku hóteli nálægt þýsku landamærunum og á því tungumáli getum við átt samskipti. Mér er sem sagt kennd pólska á þýsku og það gengur bara vonum framar. Hvað hefði minn góði þýskukennari úr Menntaskólanum í Reykjavík, Halldór Vilhjálmsson, sagt við því? (MYND: Bente frá matvælaeftirlitinu brosir sínu breiðasta.)
Frá klukkan 06:50 til 14:50, eða 19:00 flesta daga, sneiði ég banakringluna af nýdauðu sauðfé. Næsti maður á undan mér í framleiðslulínunni er fulltrúi Mattilsynet sem ber ábyrgð á því að hver skrokkur sé ekki sýktur einhverri baneitraðri bakteríu sem veldur matareitrun, niðurgangi og neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun. Hamid, hinn kolbrjálaði íranski vinur minn, starfar einmitt hjá Mattilsynet. Á föstudaginn skar hann röð af spenum undan gyltu, sem var sem betur fer steindauð, límdi þá framan á svuntuna sína og strauk þá eins og þaulvön klámstjarna. Þetta er Hamid í hnotskurn, mikill húmoristi sem hatar múslima og gerir að þeim óspart grín. (MYND: Bertel glottir við tönn gegnum klofið svín. Þessum pilti leiðist ekki að þamba brennivín og er það vel.)
Wako heitir Eþíópíumaður nokkur sem gegnir embættinu endetarm. Dægrinn löng uppfyllir hann þá skyldu að fjarlægja endaþarminn úr nýslátruðum lömbum. Wako grípur með til þess gerðri töng um fremsta hluta endaþarmsins og stingur svo hníf sínum umhverfis líffærið. Með tignarlegri handahreyfingu dregur hann svo þarminn út úr fórnardýrinu og glottir sigri hrósandi glotti þess manns sem haft hefur Heile Selassi sem keisara og lifað það af. (MYND: Ryzsard hinn pólski (frb. ríssard) sagar svín í tvennt eins og hann hafi aldrei gert annað. Hann hefur reyndar aldrei gert annað.)
Nortura hefur verið býsna forvitnilegur vinnustaður síðustu tvo mánuði. Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem ég hef þurft að velja á milli kaffibolla eða klósettferðar en kaffihléin í sláturhúsinu eru lengst tíu mínútur. Ólaunaður matartími er 30 mínútur af hverjum átta mínútur samanlagt fara í að labba til og frá mötuneytinu sem sennilega er það besta í Skandinavíu, gjörsamlega frábær matur fyrir fáar krónur. (MYND: Nærmynd af Ryzsard sem er gjörsamlegur tvífari Kristjáns félaga míns sem vinnur á Eldsmiðjunni. Bobbi, ef þú ert að lesa, ertu ekki sammála?)
Ég hef einu sinni þurft að taka klósettferð fram yfir kaffitíma en það var á föstudaginn þegar móðir alls niðurgangs skók líkama minn. Skemmst er frá því að segja að ég rétt náði að hlaupa úr slátursalnum á postulínið og þurfti að grátbiðja hinn slóvaska Fidel að ljúka sér af þar sem hér væri sönn aurskriða í uppsiglingu. Hann brá skjótt við og bjargaði lífi mínu. Fidel er sá maður sem olli því að ég mun aldrei aftur leggja mér norskt lambakjöt til munns eftir að ég horfði á hann hnerra inn í lamb sem hann var að draga innyflin úr. Norskt lambakjöt er hins vegar engan veginn samanburðarhæft við hið íslenska svo einskis sakna ég…þannig séð. (MYND: Ég á Jarvis-loftklippunum sem ég nota við að klippa allt að tvöþúsund hryggjarliði á dag af nýslátruðum lömbum. Á myndinni hér að neðan má sjá fitubílinn svokallaða sem varla krefst nánari útskýringa.)