Eins konar sumarfrí

bjorgunarbatadyfaVið erum í sumarfríi þessa vikuna, að minnsta kosti þriðjudag til og með föstudags. Þar með er ekki sagt að við sitjum með freyðandi piña colada og horfum á sólina setjast í glóandi geislahafi í Norðursjóinn. Hins vegar erum við búin að synda töluvert í skærlitum flotbúningum í tveggja gráða köldum sjó í dag. (MYND: Við æfðum m.a. notkun svona báta í dag en fengum reyndar ekki að prófa dýfuna. Myndin er frá heimsmeti í björgunarbátadýfu í Rosendal í ágúst í fyrra, bátnum var sleppt úr 60 metra hæð.)

Nú, hljómar þetta ekki eins og dæmigerðar sumarleyfisathafnir í Skandinavíu? Þær eru það heldur ekki. Við erum á offshore sikkerhetskurs hjá Falck Nutec við Jåttåvågen í Stavanger, tveir dagar búnir, tveir dagar eftir. Gærdagurinn fór allur í bóklegt nám í kennslustofu en í dag brá hópurinn, 30 manns, undir sig betri fætinum og fór að æfa björgun úr sjó, notkun flotbúnings og tveggja algengustu tegunda björgunarbáta sem notaðar eru á norskum olíuborpöllum.

Við syntum með þremur leiðbeinendum um Jåttåvågen, lærðum að tengja okkur saman í “teppi” og “slöngu” og koma okkur frá A til B í þeim fylkingum. Blíðskaparveður var sem betur fer og sól skein í heiði, alla vega eftir hádegið, en það kom ekki í veg fyrir að við fengjum að reyna hvernig er að fljóta um í köldum sjó í hífandi roki. Í því skyni hefur Falck Nutec komið sér upp gríðarmiklum blásara sem framkallar á svipstundu þrútið loft, þungan sjó og þokudrungað vor, rétt eins og í kvæði Matthíasar Jochumssonar. Hafði þetta töluverð áhrif þótt sem betur fer sykki enginn niður í bráðan Breiðafjörð í brúðarörmum, enda hefði það sennilega verið illframkvæmanlegt hér.

Eftir prýðisgóðan hádegisverð var æfð rýming gegnum björgunarhólk (n. redningsstrømpe) en þessi dapra íslenska þýðing er mín, menn hjá Slysavarnaskóla sjómanna hafa án efa betri hugmyndir. Fyrirbæri þetta gerir sennilega ekki ráð fyrir því að fólk í lífsháska á olíuborpalli hafi dundað sér mikið við að lyfta lóðum í sínum mikla og góða frítíma en án þess að ég ætli að fara nánar út í niðurlægingu mína í þessum hluta æfingarinnar get ég upplýst að ég festist þrisvar sinnum á leið minni niður gegnum hólkinn og uppskar ýmsar háðsglósur samnemenda fyrir vikið.

Í heildina hefur þetta verið býsna hressandi og upplýsandi allt saman en þess má geta að í dag heyrði ég í fyrsta sinn manneskju frá fylkinu Møre og Romsdal (sem Snorri kallar Mæri og Raumsdal í Heimskringlu) mæla á framburðarmállýsku sinni sem var stórmerkileg upplifun.yrlufing (MYND: Rýming úr þyrlu í sjó æfð. Þetta verður veganestið okkar inn í helgina.)

Næstu tveir dagar verða spennandi. Á morgun er höfuðáhersla dagsins brunavarnir og notkun handslökkvibúnaðar en einnig fáum við verklega hluta skyndihjálparinnar sem hófst bóklega í gær. Þar verða engin vettlingatök heldur verða nemendur látnir beita hjartahnoði og blæstri á dúkku í þrjár mínútur samfleytt til að sýna þeim hvar Davíð keypti ölið. Ég hef sennilega setið gegnum ekki færri en tólf skyndihjálparnámskeið síðan 1995 án þess að lenda í slíku pumpmaraþoni en jæja…

Á föstudaginn kemur svo loksins rúsínan í pylsuendanum, hin annálaða þyrluæfing þar sem mannskapurinn þarf að koma sér út úr þyrlulíkani á hvolfi á kafi í sundlaug. Við sáum tvo hópa æfa þetta í dag og virtust allir koma lifandi upp. Falck Nutec vill engar myndatökur á svæðinu nema allir þátttakendur samþykki og ég ætla að kanna hljóðið í fólki á morgun. Það væri hálfómögulegt að dokumentera þetta ekki. Spyrjum að leikslokum með það mál.

Eftir svona “fríviku” yrðu flestir fegnir því að komast í gott helgarfrí. Okkar bíða þó grimmilegri örlög en svo því sjötta helgi brønnteknikk-námskeiðsins hefst stundvíslega klukkan 17:00 á föstudaginn. Ég tel mínúturnar í páskafríið!

Athugasemdir

athugasemdir