Ég ritaði nokkrar línur á einn af spjallþráðum Egils Helgasonar á Eyjunni í gær, eins og ég geri gjarnan, og kom þar auk annars inn á hvað Litla-Hraun verður kallað þegar Geir Haarde, Sigurjón Árna og þeir eru farnir að rífa í lóðin í ræktinni þar. Litla-Hrun auðvitað!!! Stundum held ég að ég hafi hreinlega verið Hjálmar Jónsson frá Bólu í einu af ótal fyrri lífum mínum. Eða kannski var ég Geir H. Haarde, hver veit?
OK, ég er búinn að Geir H. Haarde-a yfir mig hérna á tveimur sólarhringum, ég veit það. Svona er að liggja vel við höggi eins og öldungurinn í Fóstbræðra sögu. Talandi um Egil þá sagði hann frá innliti í Þórbergssetrið í Hala í Suðursveit í Kiljunni í síðasta þætti. Mér finnst Kilja Egils alveg hreint burðarefni í íslenskri dagskrársögu. Ég er að hugsa um að kaupa mér fullt af rauðvíni ef ég lifi fram að helgarfríi og horfa á Kiljur haustsins á lýðnetinu á laugardaginn. Bragi Kristjónsson hefur aldrei slegið feilnótu í frásögnum sínum sem eru einstakar og sagðar af lifandi frásagnarkúnst. Mér leiðast hins vegar Páll Baldvin og Kolbrún þótt bæði séu þau fyrrum samstarfsmenn mínir, hvort af sínum fjölmiðlinum. Þau eru bara að kíta.
Mér var boðið nýtt starf hjá Nortura í fyrradag og það í sjálfu sláturhúsinu. Ég þáði þetta með þökkum og byrjaði klukkan hálfsjö í morgun. Nú, hva, er ég ekki þegar að vinna í sláturhúsi? spyrja nú einhverjir. Nortura er kjötvinnsla frá a til ö, fra råvarer til merkevarer eins og þeir kalla það, og ég var að vinna í fínstykkjadeildinni. Nú fæ ég loksins kannski að skjóta belju í hausinn eins og sýnt er í þessu myndbandi (spólið til 01:35).
Dýravinum til friðþægingar er það ekki að fara að gerast, aðeins svínum og sauðfé er slátrað hjá Nortura hérna í Stavanger. Þá er þetta svo sem ekki mikil slátrun nú orðið, svín, lömb og kjúklingar fara í gasklefa og sofna þar en nautgripir eru enn skotnir. Það hefur með einhver kjötfræðileg atriði að gera. Þá er hér enn stunduð halal-slátrun að hætti múslima (þetta sem SS er að hætta með) en ég ber enga ábyrgð á því.
Dagurinn í dag fór í að klippa efsta hryggjarliðinn af nýslátruðum lömbum með loftknúnum Jarvis-klippum. Það var býsna lærdómsríkt. Við hliðina á mér stóð maður með vélsög og sagaði svín í tvennt allan daginn. Þetta dugir til að byrja með.