Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að svipta hulunni af nýja starfinu sem var svo sem aldrei neitt leyndarmál. Síðastliðinn fimmtudag, 1. september, hóf ég störf hjá NorSea Group hérna úti í Tananger sem tilheyrir sveitarfélaginu Sola, nágrannabæ Stavanger. Þar er meðal annars alþjóðaflugvöllurinn í Stavanger þótt hann sé ekki formlega í Stavanger. (MYND: Athafnasvæði NorSea Group í Tananger. Ég bý efst uppi í hægra horninu, á milli er Hafursfjörðurinn þar sem Haraldur hárfagri barði niður síðustu bændauppreisnina árið 872. Kann að virðast stutt en vegna fjarðarins er þetta hálftíma akstur.)
NorSea Group (heimasíða) er þjónustufyrirtæki við norska olíu- og gasbransann og sér um að koma öllum útbúnaði fyrir borpallana á skipsfjöl og svo aftur af henni þegar þetta er sent í land. Fyrirtækið var stofnað í árdaga norska olíuævintýrisins, árið 1965, og hefur vaxið og dafnað síðan. NorSea rekur tíu starfsstöðvar meðfram hinni ógnarlöngu vesturströnd Noregs, þá nyrstu í bænum Hammerfest í Finnmerkurfylki en það er sjötti nyrsti bær heims og sá alnyrsti með yfir 4.000 íbúa.
Starfstitillinn er baseoperatør sem er nú bara með því virðulegra sem ég hef skartað um dagana. Í þessu felst losun og lestun stórra flutningaskipa sem ferja útbúnað til borpallanna auk þjónustu við önnur olíutengd fyrirtæki á svæðinu sem eru meðal annarra ConocoPhillips, Halliburton og Baker Hughes. Vinnustaðurinn er við opið gin Norðursjávarins og skammt frá stórum olíu- og gasbrunnum, þar á meðal hinni nýfundnu risaolíulind á Aldous og Avaldsnes-svæðinu sem er stærsti fundur Statoil í meira en aldarfjórðung.
Hver var aðdragandinn að þessu öllu saman? Snemma í vor áttaði ég mig á því að þótt ég hafi verið tiltölulega vinsæll yfirmaður á Intern Service-sviði Háskólasjúkrahússins í Stavanger og búið í 200 metra fjarlægð frá vinnustaðnum yrði það aldrei mitt rétta hlutverk í lífinu að sitja inni á skrifstofu, skipuleggja vinnu annarra, færa inn veikindafjarvistir, framkvæma starfsmannasamtöl og bera fulla ábyrgð á gerðum fólks sem hefur ekkert annað markmið í lífinu en að gera helst ekki neitt fyrir sem hæst laun og gjarnan komast á bætur og sitja heima hjá sér á kostnað skattborgara. It Ain’t Me Babe eins og Bob Dylan söng einhvern tímann. Þetta á reyndar ekki við um alla þarna en marga og því miður ýtir norskur vinnumarkaður dálítið undir að þú getir verið aumingi og haft það bara fínt. Ekki mín deild.
Ég sendi því atvinnuumsóknir til þriggja fyrirtækja með tilheyrandi meðmælum, prófskírteinum og umsóknarbréfum (n. søknadsbrev, algjörlega ófrávíkjanlegt fylgiskjal með atvinnuumsókn í Noregi ef þú hefur snefil af áhuga á að fá vinnuna). Ég fór í þrjú atvinnuviðtöl í kjölfarið og þeim fylgdu þrjú atvinnutilboð. Greinilegt að maður er loksins búinn að læra galdurinn á bak við norsk atvinnuviðtöl. Viðtalið hjá NorSea fór fram mánudagsmorguninn 20. júní. Ég mætti í burstuðum skóm með sparibrosið og hefði greitt mér hefði ég haft hár í það. Boðið var upp á ágætt kaffi (ég hef fengið svo vont kaffi í atvinnuviðtölum hér að það hefur nánast eyðilagt viðtalið og/eða endað með bráðaniðurgangi) og eftir klukkustundar spjall við starfsmannastjórann og yfirmann þeirrar deildar sem ég sótti um starf í var ég kvaddur með virktum og sagt að ég fengi atvinnutilboð eða nei fyrir helgi. Þetta var sem sagt mánudagurinn í vikunni sem lauk með föstudeginum 24. júní en þá hófum við sumarfrí og flugum heim til Íslands eins og hörðustu lesendur mínir muna vafalítið. Mér var lofað svari fyrir frí svo ég þyrfti ekki að engjast af áhyggjum í fríinu (eins og ég hefði gert það, ha ha:).
Klukkan 09:00 morguninn eftir, 21. júní, barst atvinnutilboð með tölvupósti og ég boðinn velkominn til starfa 1. september svo lengi sem ég gæti drattast til að taka lyftarapróf í millitíðinni. Ég samþykkti þetta eftir að hafa þóst taka mér nokkurra klukkutíma umhugsunartíma. Í raun þurfti ég ekkert að hugsa mig um.
Sá sem ekki tekur atvinnutilboði frá fyrirtæki í norska olíubransanum er annaðhvort geðveikur eða nýbúinn að vinna milljarð í lottóinu. Þetta er einfaldlega öruggasta vinna, einna bestu laun og bestu eftirlaunasamningar og tryggingar á norskum vinnumarkaði. Slegist er um störfin enda tók það mig heila fimmtán mánuði, mjög góð meðmæli frá tveimur norskum vinnustöðum og alla mína persónutöfra að komast í olíuna. Það sem maður leggur á sig.
Þetta er alla vega í höfn og nýi vinnuveitandinn er strax búinn að samþykkja að gefa mér frí til að kíkja til Íslands um jólin. Eins og venjulega hefst sú heimsókn á Argentínu steikhúsi og svo rekur hver veislan aðra þar til ég þarf gámaskip frá Eimskipafélaginu til að flytja mig heim. Í gær kom Ásgeir svo hingað í heimsókn og mokaði í mig rammíslensku rúgbrauði og SS-pylsum. Ég verð sílspikaður!