Jæja, einhverjum munu væntanlega þykja þetta stórtíðindi en í gær braut ég odd af samskiptasíðuoflæti mínu og skráði mig til leiks á svokölluðum Twitter. Ég hef lengi þrjóskast við að koma nálægt Facebook þrátt fyrir fjölda áskorana og er að hugsa um að halda þeirri stefnu minni til streitu. Twitter-skráningin er meira félagsleg tilraun en upphafið að stanslausri legu minni á alnetinu, það er síst meiningin.
Twitter virðist ganga út á að skrifa stuttar skýrslur um hvað maður er að gera hverju sinni, ekki er gert ráð fyrir að lengd færslunnar fari umfram 140 stafabil sem verður að teljast knappt. Þessi nýja aðild mín er að ráði Hilmars Veigars Péturssonar vinar míns. Honum finnst mjög ‘2004’ að ég sé bara með vefsíðu og veit af varhug mínum við Facebook. Hann skoraði því á mig að ganga til liðs við Twitter og steig ég skrefið í gær, auðvitað á fjórða glasi.
Núna geng ég sem sagt undir notandanafninu @Atli_Steinn á Twitter og er búinn að skrifa alveg heilar fjórar athugasemdir síðan í gær. Sú nýjasta greinir frá því að ég sé að skrifa þennan pistil. Spyrja má hvert þessi geysimikla upplýsingaþróun stefni og hvort hún sé heillavænleg. Er stutt í að fólk verði almennt alltaf tengt við lýðnetið og um leið alltaf virkt þar, alltaf að senda frá sér einhverjar upplýsingar og um leið alltaf að taka á móti upplýsingum í einhverju formi? Verður að lokum hægt að framkvæma alla daglega hluti í einhvers konar rafrænu umhverfi (man einhver eftir kvikmyndinni The Net frá 1995 með Söndru Bullock)?
Þetta Twitter-mál er í raun mjög stórt skref fyrir mig. Þó að netnotkun mín verði að teljast töluverð er hún óskaplega einföld. Daglegur rúntur minn um vefsíður er þessi: Pósthólfið mitt, Vísir, Mbl, Silfur Egils (á Eyjunni), RÚV, DV, Stavanger Aftenblad, NRK (norska ríkisútvarpið) og (stundum) BBC. Þarna fyrir utan kemur svo heimabankanotkun og notkun vefja fyrirtækja og stofnana til að framkvæma einhverjar aðgerðir, svo sem að telja fram til skatts (sem ég gerði nú á pappír þangað til í fyrra) eða panta eitthvert drasl. Að lokum eru það skrif mín hér.
Ég er sem sagt þessi einfaldi netneytandi og þess vegna skiljanlegt að mér finnist óskaplegt að vera kominn á Twitter. En svona er vísinda- og tilraunaeðli mannskepnunnar. Vísindin efla alla dáð og svo framvegis.