Náðarstundin nálgast. Meðalaldur íslenskra karlmanna er 79,6 ár samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Það táknar að þegar ég verð 39,8 ára verð ég miðaldra. Á morgun, 30. mars, verð ég 36 ára sem táknar að ég hef nákvæmlega 3,8 ár þangað til ég get kallað mig miðaldra. Ég myndi sætta mig við að vera kallaður margt annað en svona er lífið.
En afmælisbörnin eru fleiri 30. mars. Félagi minn Eric Clapton á sama afmælisdag og ég. Hann hringir á hverju ári og spyr hvort ég sé nú ekki einu sinni til í að halda sameiginlega afmælisveislu. Alltaf er ég þó upptekinn við eitthvað merkilegra og karlgreyið orðinn verulega sár. Tracy Chapman á líka sama afmælisdag og ég, sléttum áratug eldri, fædd 1964. Hrútar eru merkilegt fólk.
Og að öðru, ríkisstjórnin reytir nú það litla hár sem á höfðum hennar er yfir því að bandaríska utanríkisráðuneytið hafi hugsanlega gaukað skjölum að lekavefnum WikiLeaks sem fjalla um skapgerðareinkenni Össurar Skarphéðinssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. Staðgengill sendiherra Bandaríkjanna hefur verið boðaður á fund utanríkisráðuneytis Íslands í kvöld. Sá hefur ástæðu til að skjálfa á beinunum.
Ábyrgðarmaður lekans á heiður skilinn. Ríkisstjórn sem er fræg fyrir leynimakk og hokur (eða hokr?) í bakherbergjum og vill helst ekki að borgarar landsins frétti nokkurn skapaðan hlut á það fullkomlega skilið að upplýsingum um hana sé lekið sem víðast um Netið. Það er alltaf jákvætt þegar menn fá að bragða á eigin meðulum.
Þá hefur Jóhanna Sigurðardóttir að sögn RÚV óskað eftir fundi með Hillary Clinton til að ræða Icesave. Samkvæmt sömu frétt svarar forsetafrúin fyrrverandi hins vegar engu enda hefð fyrir því að erlendir þjóðhöfðingjar svari Jóhönnu seint og illa. Er það furða? Manneskjan talar ekki ensku!