DV um helgina og evrópskar vetrarhörkur…aftur

dvlogoHelgarblað DV núna um helgina mun innihalda opnugrein eftir mig þar sem ég ræði við íslenskar fjölskyldur sem hleypt hafa heimdraganum og búa hér í Stavanger og nágrenni, alls átta manns. Þetta er skyldulesefni fyrir alla sem eru að velta því fyrir sér að flytja til Noregs og ég bendi þeim hópi, sem hefur verið að senda mér fyrirspurnir um atvinnumál, norskt samfélag og hvernig sé að koma undir sig fótunum hér, á þessi viðtöl sem heimild. Ég ræði meðal annars við kvenkyns húsasmíðameistara, hjúkrunarfræðing og meiraprófsbílstjóra svo efnið ætti að höfða til fjölmennra stétta á Íslandi…og bara allra sem eru að velta Noregi fyrir sér.

Mér verður hugsað til desembermánaðar í fyrra við lestur frétta af vetrarhörkum í Evrópu. Þá hafði ég ekki undan að skrifa fréttir á morgunvaktinni hjá 365 um nýjustu áföll fólks sem rembdist eins og rjúpa við staur um alla Evrópu við að komast til áfangastaða í öðrum löndum fyrir jólasteik. Stærstu flugvellir lokuðust alveg, gott ef Heathrow var ekki einn eftir í London en allt farið í kaldakol þar vegna tafa. Þá stöðvaðist Eurotunnel-lestin sem keyrir undir Ermarsundið af því að rafkerfi hennar hrundi undan hitamismuninum ofan- og neðanjarðar. Fjöldi fólks lést í Póllandi og Þýskalandi og til að bæta gráu ofan á svart stóð gasdeila Rússa og Úkraínumanna sem hæst og Gazprom-risinn rússneski hafði lokað fyrir gasleiðslurnar um Úkraínu sem fluttu gas til minnst sex Evrópulanda.

Á meðan var rjómablíða og sennilega besta veðrið í Evrópu í sjálfri Reykjavík, mest tíu stiga hiti einhverja daga í janúar minnir mig. Nú er ástandið að verða svipað, Kastrup-flugvöllur þurfti að aflýsa 160 flugferðum fyrr í vikunni, átta eru látnir úr kulda í Póllandi og flugvellir eru að lokast í Sviss og Bretlandi. (MYND: OK, það var ekki eintóm sumarblíða heima. Þessi mynd frá 26. febrúar sl. sýnir ástandið í Mosfellsbænum. Daginn áður höfðum við náð að brjótast í Bónus eftir nauðsynjum en vorum svo bara veðurteppt heima um helgina sem var fínt.)
fastur
Hér í Stavanger er sól og logn viku eftir viku en fimbulkuldi. Norskur byggingarstíll gerir ekki ráð fyrir mikilli einangrun íbúðarhúsnæðis og kynda borgarbúar því sem aldrei fyrr með eldiviði sem er ódýr valkostur við ofurdýra rafmagnshitun. Það var stórkostleg sjón að líta yfir borgina af 5. hæð sjúkrahússins í sólskininu upp úr hádegi í dag. Reykjarmökkurinn stóð upp úr nánast hverjum einasta skorsteini og liðaðist til himins í froststillum og sól. Sá böggull fylgir skammrifi að svifryk mælist hér gríðarlegt og eru göturnar nánast huldar mistri allan daginn. Þar er ég hræddur um að heilsuverndarmörk svifryksreglugerðar Reykjavíkurborgar yrðu að litlu höfð, 50 µg/m3. Hér er staðan sennilega 1.000.000 µg/m3 þegar þetta er skrifað.

Arineldurinn er þó býsna notalegur of veturnætur og við kveikjum mikið upp hjá okkur, spænum upp bretti af birkikubbum eins og að drekka vatn. Snarkandi eldur, kaffi og sletta af Baily’s út í getur komið manni langa leið á myrku kvöldi. Reyndar má hafa hvaða áfengi sem er um hönd, það er alveg jafngaman.

Athugasemdir

athugasemdir