Dreitill í tímans glas

maiden-miiÍ dag eru 20 ár liðin frá fyrri tónleikum Iron Maiden á Íslandi. Þeir fóru fram í Laugardalshöllinni föstudaginn 5. júní 1992 sem var byrjun hvítasunnuhelgar þess árs. Ef ég man rétt voru tónleikarnir á vegum Listahátíðar í Reykjavík en ég fullyrði það ekki. Það sem mun færri vita, en kemur þó fram í umslagstexta plötunnar Fear of the Dark sem kom út vorið 1992, er að tónleikarnir í Reykjavík 5. júní voru upphafstónleikar tónleikaferðalagsins Fear of the Dark World Tour. ‘Opening in Reykjavik Iceland’ stóð þar skýrum stöfum. (MYND: Miðinn minn, númer 0809, á þessa tónleika Iron Maiden fyrir 20 árum. Hann liggur enn hérna í skrifborðsskúffunni minni. Maður hendir ekki svona löguðu.)

Þessir tónleikar Iron Maiden eru ein eftirminnilegasta tónleikaheimsókn mín á Íslandi þótt ég hafi síðar séð Metallica í Egilshöll, Rammstein í téðri Laugardalshöll og Korn nokkru síðar og Kraftwerk í Kaplakrika (allt 2004 nema Rammstein 15. júní 2001 og fékk ekki fulla heyrn aftur fyrr en næsta miðvikudag). Ég sá Maiden aftur í Höllinni 7. júní 2005 en þótti þeir ekki eins góðir og sumarið 1992.

Þetta var gjörsamlega kynngimagnaður dagur. Ég var 18 ára pjakkur í sumarvinnu hjá Ístak að reisa girðingu utan um geymslusvæðið í Kapelluhrauni gegnt álverinu. Sumarið 1992 var eitt mesta blíðviðrissumar sem ævi mín nær yfir og gryfjan í Kapelluhrauni sem við unnum í var sem steikarpottur. Lakkið á fyrirtækisbílum Ístaks, þremur Lada 1500 hlaðbökum með nafni fyrirtækisins sem aka mátti á allt að 60 kílómetra hraða í öðrum gír á innsoginu einu, bakaðist og upplitaðist hægt en örugglega yfir sumarmánuðina.

Fyrir 20 árum fékk maður laun hálfsmánaðarlega á föstudögum og vinnudagurinn var frá 08 til 18 alla daga nema föstudaga en þá var hætt 15:30 svo menn kæmust í ríkið og bankann. Sennilega allt kolólöglegt nú til dags nema ríkið. Guðmundur Jónsson smiður ók mér heim á Sunnuflötina á sínum BMW 520 árgerð 1983, sem þótti kerra með reisn þá, og þar hittumst við félagarnir í Garðabænum til hroðalegrar upphitunar fyrir næststærstu rokktónleika okkar á Íslandi fram að þessu. Þeir stærstu voru Risarokk í Kaplakrika 16. júní 1991, Bulletboys, Quireboys, Thunder, Slaugter, GCD (og Poison hefði spilað ef bassaleikarinn hefði ekki fingurbrotnað). Hérna má lesa fróðlega umfjöllun Tímans frá 1991 um þessa tónleika og blaðamennirnir ekki af verri endanum, annar þeirra lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins í dag en hinn landflótta framsóknarþingmaður.

Upphitunin var mjög í anda rokksins enda man ég hana ekki í smáatriðum en ljóst er að nýleg og áðurnefnd geislaplata Bruce Dickinson og félaga var í spilaranum og sennilega hef ég svalað mér á Stolichnaya-vodka þar sem þetta gerðist rétt áður en 15 ára stríðið svonefnda hófst en svo nefni ég það 15 ára tímabil þegar ég drakk eingöngu Captain Morgan í kók.

Við tókum leigubíl úr Garðabænum niður í höll um það leyti sem húsið opnaði, hann hefur sennilega kostað nálægt 600 krónum á þeim tíma. Fyrir utan tónleikastaðinn var auðvitað mikið svall og veðurblíða með eindæmum, eitt af þessum ógleymanlegu augnablikum íslenskrar tónlistar- og drykkjusögu. Gæslan fann með miklum metnaði allt það áfengi sem ég hafði falið á mér en leyfði mér í frjálslyndum anda tímabilsins að þamba það allt fyrir framan þá áður en þeir slepptu mér inn. Svo hófst þessi mikla upplifun með upphitun Gulla Falk og félaga í Exizt sem ég man lítið eða ekkert eftir. Það sem ég man hins vegar best eftir frá öllum tónleikum Maiden er þegar þeir tóku sveinsstykkið sitt, Run to the Hills. Þá held ég að þakið hafi ætlað af gömlu höllinni en einnig ríkti hreinlega lævi blandið andrúmsloft þegar titillagið Fear of the Dark glumdi í gamla víginu, frábært tónleikalag og mjög iron-maidenskt ef svo mætti segja.

Kvöldið var engan veginn búið þegar hleypt var út af tónleikunum en þá hélt hljómsveitin gríðarmikla veislu á Grjótinu (nú American Style) við Tryggvagötu, þáverandi þungarokksbúllu Reykjavíkur sem þekkt var fyrir frísklega sviðsframkomu hljómsveita á borð við Stálfélagið og Jötunuxa sem þá báru uppi rammíslenskt þungarokk ásamt öllum dauðarokksveitum þess tíma. Dyraverðir Grjótsins voru þekktir fyrir að klippa bindi af gestunum og einu áfengisveitingarnar voru vodka og bjór. Þarna hélt Iron Maiden upp á afmæli trymbils síns, Nicko McBrain, sem var einmitt þennan dag og komust færri að en vildu. Röðin náði út í sjó. Við félagar gáfumst að minnsta kosti upp, drifum okkur í partý í Hafnarfirði og daginn eftir á sveitaball í Logalandi í Reykholtsdal þar sem við dvöldum fram á mánudag við undirleik Nýrrar danskrar og ég man ekki hverjir hinir voru. Ég var raddlaus fram á miðvikudag. Þetta var bara byrjunin á sumrinu 1992. Ó, ljóðin er þutu um þitt blóð frá draumi til draums…

Athugasemdir

athugasemdir