Dauðinn ekur Ford Transit

stofaVið erum flutt. Klukkan er 23:48 að staðartíma og átökunum lauk fyrir þremur og hálfum tíma. Allt komst inn, sumt þó við illan leik eins og rúmið okkar sem var dregið í pörtum eins og strandaður hvalur upp örmjóan stiga og inn í svefnherbergi. Þetta rúm var keypt í Betra baki á Amerískum dögum þar í júlí 2003. Það átti svo sjö þægileg ár á Bragagötu 16 og Leirutanga 2 en hefur nú hlotið eldskírn sína. (MYND: Rúmgóða stofan okkar eftir flutninga. Lesendur geta ímyndað sér skemmtun næstu vikna.)

Ekki er hægt að segja frá því hvernig 130 kassar af bókum og um það bil þrjú tonn af öðru dóti komust úr geymslurými við Hillevågsveien og hingað heim á Overlege Cappelensgate án þess að koma þar að þætti Nazartransport sem rætt var um í síðasta pistli. Nazar (sem heitir ekkert Nazar heldur M eitthvað og er tyrkneskur en bjó nafnið á fyrirtækið til úr nöfnum dætra sinna og konu) mætti á ‘stóra’ bílnum sínum klukkan hálfsjö, einni klukkustundu síðar en umbeðið var. Þessi gríðarstóri bíll reyndist hvorki meira né minna en Ford Transit en bifreið sömu gerðar má sjá á myndinni hér.
ford transit
Ford Transit er sem sagt hugmynd Nazartransport um bifreið til að flytja búslóð sem kom hingað í sæmilega pökkuðum bláum 40 feta gámi. Til að gera aðra langa, og mun ömurlegri, sögu en í síðasta pistli stutta komu feðgarnir Elli okkur til aðstoðar (þeir heita það báðir). Þeir voru á nákvæmlega jafnstórum sendibíl og til samans voru þessar tvær bifreiðar stútfylltar sjö sinnum, þeim ekið á milli og tæmdar á áfangastað. Þessari törn verður ekkert lýst hér en hún hófst þegar við byrjuðum að bera út úr geymsluhúsnæðinu klukkan 16 og lauk klukkan 20:30. Það er vel sloppið myndi ég segja.

En hvað er maður að kvarta? Ég sef í rúmi í nótt, ég fékk stórfé endurgreitt frá skattinum í dag og ég er með Stolt siglir fleyið mitt með Gylfa Ægissyni yfir geislanum. Stemmningin gerist ekki norskari. Kona í vinnunni í dag spurði mig hvort það væri rétt að Íslendingar ætu eistu sauðfjár þegar þeir gerðu sér glaðan dag. Ég sagði að það væri hverju orði sannara og að auki fengjust andlit þessara fögru skepna með augum og tilheyrandi fyrir lítið fé gegnum lúgu á BSÍ. Eftir á fór ég að hugleiða sjúkleika þess að kaupa haus af kind með rófustöppu og kók frá Vífilfelli með og það í lúgusjoppu. Samt finnst manni ekkert eðlilegra. Það er greinilegt að enginn er spámaður í sínu heimalandi.

Athugasemdir

athugasemdir