Það verður gestkvæmt í garðinum hjá okkur yfir sumarmánuðina. Jafnvel of gestkvæmt að sumra áliti. Þessi fagurbrúni djöfull leit á okkur í kvöld með öllum fjórum, sex eða átta augunum, það er dálítið erfitt að átta sig á líkamsbyggingu hans. Hann nálgast tíu sentimetrana þegar hann gerir sig hvað breiðastan og fór sér að engu óðslega hér á hellunum við garðdyrnar hjá okkur. Best er að láta alla líkamlega snertingu eiga sig því slímið sem þessir félagar seita skýtur gamla tonnatakinu ref fyrir rass og kostar blóð, svita og tár að ná af. (MYND: Rósa Lind Björnsdóttir.)
Núna er ég búinn að vinna síðasta mánudaginn fyrir sumarfrí. Það er mikill áfangi. Auðvitað var hann viðbjóður, allir meira og minna veikir og ég geðveikur. Þá hóf minn fyrsti sumarafleysingamaður störf í dag, ungur Afgani sem verður í starfsþjálfun út vikuna og byrjar svo af krafti á mánudaginn sem sjálfstæður hreinsunareldur.
Núna erum við að þvo allan þvott og er þriðja vélin að renna sitt skeið. Svo þarf að éta og drekka sérvalin matvæli úr ísskápnum en súru gúrkurnar og eitt og annað fleira mega dvelja þar þangað til við komum til baka. Eins þarf að passa hvað við kaupum af kælivörum fram á fimmtudag svo sem minnstu þurfi að henda áður en við förum út á flugvöll á föstudagsmorgun. Mikil stærðfræði. Eins þarf að tæma stafrænar myndavélar yfir á heimilistölvurnar fyrir fríið og við eigum eftir að panta ferð með Baldri út í Flatey!!! Þetta er full vinna þetta frí!
Posten býður upp á póstvörslu sem við þáðum núna svo við þurfum ekki að gera hana Britt við hliðina á okkur geðveika við að tæma póstkassann okkar. Það gerði hún eins og herforingi um jólin. Við þurfum hins vegar að plaga hana með ruslatunnunum okkar sem þarf að draga upp á götu hvert sunnudagskvöld, ýmist þá grænu, brúnu eða svörtu, stundum grænu og brúnu saman, sérstakt dagatal yfir allt árið kemur frá Sorpu í ársbyrjun. Britt sleppur sennilega með einn tunnudrátt þar sem svarta tunnan var tæmd í morgun og í hana fer dót sem rotnar ekki. Það er hins vegar ekkert grín ef brúna kvikindið þarf að bíða mikið lengur en viku en í hana fara matarafgangar. Þar kviknar líf.
Í kvöld munum við millifæra tugþúsundir norskra króna, sem við höfum lagt fyrir í vetur, inn á reikninga okkar á Íslandi fyrir fríið. Millifærslan tekur tvo virka daga. Það var alveg eftir íslensku krónunni að vera að þenja sig eitthvað þannig að sú norska endaði í 20,91 eftir viðskipti dagsins í dag. Hún var komin langt yfir 21 krónu fyrir hálfum mánuði. Tap okkar nemur nærri 30.000 íslenskum krónum sem eru fjölmargir tvöfaldir gin og tónik á einhverjum bar. Skólabókardæmi um það hvernig íslenska hagkerfið vinnur gegn sjálfu sér. Steingrímur!