Nóg var að gera í aukavinnunni um helgina og einkenndu slagsmál, dólgslæti ölvaðra og almennur niðurgangur mannlífsins laugardagskvöldið en föstudagskvöldið var eins konar logn á undan þessum stormi, steindautt. Á tímabili aðfaranótt sunnudags var sennilega allt tiltækt lögreglulið Stavanger statt á planinu fyrir utan Xlnt og Karma þar sem blossað höfðu upp átök milli ýmissa þjóðarbrota. Í raun vantaði bara spilltan stjórnarher til að salla niður viðstadda, þá hefði ástandið sómt sér vel í hvaða frétt sem vera skyldi frá Mið-Austurlöndum. (MYND: Gefið upp alla von. Hluti gæslugengisins á næturklúbbnum Karma./Sandra Vidrequin Youssef)
Íslendingar voru býsna fjölmennir á næturlífinu í gærkvöldi, þótt ekki hafi þeir átt þátt í óeirðum, og lá við að ég hefði átt jafnmikil tjáskipti á íslensku og norsku í dyrunum sem er nýlunda. Uppgötvun kvöldsins var þegar í ljós kom að ákveðinn einstaklingur var Íslendingur en við höfðum þá ræðst við á norsku í ræktinni mánuðum saman. Engar djúpar samræður svo sem, aðallega gagnkvæmar spurningar um hvort við værum að nota hin eða þessi tæki. Fyndið samt og sennilega má maður búast við fleiri slíkum uppákomum í framtíðinni miðað við þá Íslendingabyggð sem hér er að verða.
Norsk formlegheit eru alltumlykjandi enda fara Norðmenn létt með að gera starfsemi á borð við dyravörslu að skriffinnskubákni. Dyravarsla er í sjálfu sér ekki einfalt starf, það hef ég reynt á löngum ferli í henni. Fram að þessu hef ég þó verið vanastur því að starfsemin einskorðist nokkurn veginn við afgreiðslutíma hlutaðeigandi skemmtistaðar. Þannig er það að sjálfsögðu ekki í Noregi. Við liggur að vinnan hefjist eftir lokun. Þá eru strax haldnir tveir fundir. Annan þeirra sitja aðeins dyraverðirnir. Hinn sitja dyraverðir ásamt fulltrúum staðarins, í þessu tilfelli skemmtanastjóra og yfirbarþjóni. Farið er yfir alla atburðarás kvöldsins, allar uppákomur og allt sem betur eða öðruvísi hefði mátt fara.
Þar með er maður laus það kvöldið og rúmið tekur við. Daginn eftir skilar hver dyravörður svo af sér tveimur rafrænum vaktskýrslum gegnum innri vef PSS. Fyrri skýrslan fjallar um atburðarás kvöldsins og er þar nákvæmlega tíundað hve margir gestir sóttu staðinn, hve mörgum var vísað frá vegna ölvunar eða aldurs, hve mörgum var vísað út vegna ölvunar eða óspekta og hvernig samskiptum við lögreglu, vínveitingaeftirlit og brunaeftirlitsmenn hafi verið háttað hafi þau verið einhver (allt þetta lið er á eftirlitsrölti milli staða um helgar).
Hin skýrslan fjallar um upplifun dyravarðarins sjálfs og hvernig hann hafi haft það í vinnunni. Hún er mjög í anda hinnar öfgakenndu vinnusálfræði sem einkennir skandinavískan vinnumarkað en þó einkum þann norska. Þegar öllum þessum fundum og skýrslugerð lýkur hefur umrætt kvöld verið afgreitt og því formlega lokað. Þó er vel líklegt að teknar séu ákvarðanir á fundunum um ákveðin langtímamarkmið í gæslunni sem svo eru rædd fram og til baka og metin næstu vikur. Þannig geta tíu til tólf tímar á viku verið nánast eins og fullt starf. Það er mjög norskt.