Dásamlegur gluggi til fortíðar

dagbokÍ apríl 1982 tók ég mér myglugræna stílabók í hönd og hóf að rita dagbók. Var ég þá átta vetra. Í fyrstu var þetta með hléum en frá 1984 færði ég dagbók mína samviskusamlega að kvöldi hvers dags. Yfirleitt voru þetta nauðaómerkileg skrif, þurr skýrsla yfir það sem gerðist dag hvern og ef til vill ekki merkilegt aflestrar. Með tímanum breytist það mat hins vegar og nú í kvöld greip ég mér til handargagns dagbók mína frá árinu 1989. Í mars það ár varð ég 15 ára, lauk 9. bekk um vorið og hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík mánudaginn 4. september.

Mig langar að tilfæra hér nokkra vel valda daga og deila með lesendum vefsetursins og grunar að margir sem komnir eru til ára (veit ekki með vit) skynji titring í gömlum streng, eins og Jón Helgason orti í kvæði sínu, Á Rauðsgili. Hugann grunar jafnvel við grassins rót, gamalt spor eftir lítinn fót.

Fimmtudagur 5. janúar 1989
Ég fór kl. 8 í skólann og kom um kl. 1:30 [13:30] heim. Þá gerði ég ýmislegt, borðaði og fleira. Ég lærði um kvöldið og slappaði af. Í Líbýu skutu tvær F-14 niður tvær MiG-23. Bandaríkjastjórn segir MiG-þoturnar hafa verið vopnaðar og ógnað F-14 þotunum. Líbýumenn mótmæla harðlega og halda því fram að MiG-þoturnar hafi verið óvopnaðar. F-14 þoturnar voru af bandaríska flugmóðurskipinu John F. Kennedy [Þarna er Írak nútímans, Líbýa vs. Bandaríkin, sama hvenær borið er niður, það er aldrei friður. Þarna var Bush eldri að sýna testósterónmagnið].

Miðvikudagur 1. mars 1989
Hann er kominn. 76 ára bjórbanni er aflétt. Fjölmiðlar eru ‘fullir’ af umræðum. Erlendar sjónvarps- og útvarpsstöðvar eru á landinu. Bjór hefur verið keyptur fyrir hundruð þúsunda í dag. Landið flýtur í vímu. Söngvar eru kveðnir, bjórinn streymir. Ég fór til [X] um kvöldið ásamt [Y]. Við svolgruðum nokkra Lövenbräu og negldum græjurnar í botn. Þessi dagur mun verða á spjöldum sögunnar [það rættist nú].

Fimmtudagur 13. apríl 1989
Ég var með 37,4° í morgun [þetta var eftir veikindi] og lærði um daginn. Ég fékk reikninginn fyrir bókinni frá Californíu [ég get ekki orða bundist um þetta síðasta. Þarna hafði ég pantað Arnold’s Bodybuilding for Men eftir Arnold Schwarzenegger sem var ekki tekið út með sældinni í þá daga. Ferlið hófst með því að ég sendi bréf til útgáfufyrirtækisins í Kaliforníu og bað um að fá sendan reikning fyrir bókinni. Hann kom eftir hálfan mánuð. Þennan reikning trítlaði 15 ára strákstauli með niður í Búnaðarbanka í Garðabæ, lagði hann fram og fékk í staðinn ávísun fyrir nákvæmlega reikningsupphæðinni í dollurum gegn greiðslu í krónum. Þarna var dollarinn 41 króna. Ávísunina póstlagði ég svo út og hvað gerist? Jú, tveimur mánuðum seinna barst bókin með innilegu þakkarbréfi fyrir að skipta við útgáfuna. Það er ekki lengra síðan en þetta var svona!]

Miðvikudagur 2. ágúst 1989
Ég fór í vinnuna í morgun [unglingavinnan í Garðabæ] en hún er farin að gerast ansi óþolandi, bæði vegna veðurs og leiðinda. Fór svo í Heilsugarðinn [ræktin í bænum á þessum tíma] en horfði á ‘Summer School’ um kvöldið. Furðulegt hvað þetta sumar getur verið leiðinlegt.

——————

Þessi skrif tóku yfirleitt nokkrar mínútur áður en lagst var til svefns að kvöldi og ekki þóttu mér þau mikil vísindi þá. Það viðhorf er hins vegar breytt núna, 20 árum síðar, þegar ljómi æsku og minninga birtir yfir textanum. Þegar upp er staðið finnst mér fátt gefa mér meira en að grípa eina af mínum gömlu dagbókum í hönd og upplifa í huganum þann tíma þegar lífið var ‘simple and more confused’ eins og Jim Morrison skrifaði einhvers staðar í texta.

Athugasemdir

athugasemdir