Cider-hlaupið

cider-hlaupiEnn eitt örvæntingarfullt kapphlaupið í áfengisútsölur átti sér stað núna á föstudaginn. Í þetta sinn var um Coop-verslunina hérna við hliðina á okkur að ræða. Eftir hroðalega æfingu hjá Arild Haugen og félögum í City Gym ákváðum við að brennandi sólskinið kallaði á ískaldan peru-cider, mjöð sem ég hef áður ritað um. (MYND: Sigur! Kippan í höfn.)

Vandamálið er að áfengissölu í almennum verslunum lýkur klukkan 20:00 á virkum dögum og þegar við vorum komin neðst í Gangeren á rölti okkar var klukkan 19:55. Ýmsar reglur geta svo flækt málið enn frekar, það er ekki nóg að vera kominn í röð á kassa með mjöðinn þegar klukkan slær átta, kaupin verða að vera búin að eiga sér stað og það sem verst er, klukka búðarinnar gildir komi upp ágreiningur!

Ég ákvað að leggja þó allt í sölurnar og tók gamla sprettinn upp götuna eins og ég væri ekki nógu sveittur eftir nýafstaðna æfingu. Síminn minn sýndi 19:58 þegar ég æddi inn í Coop og sá mér til gleði að engin röð var við kassann. Norsk vitfirring gerir það að verkum að áfengið er innst í versluninni og hafði ég næstum rutt konu nokkurri um koll á sprettinum til baka með kippu af Grevens Pærecider. Örvænting mín var fullkomin þegar ég leit í augu afgreiðslumannsins og spurði kófsveittur og nötrandi hvort þetta slyppi til. “Det går fint,” svaraði hann kankvís og þá opnuðust hlið sálar minnar og gleði mín flaug óravegu yfir hafið (ókey þetta er stolið úr Spámanninum).

Annars hefði þetta svo sem ekki ráðið neinum úrslitum um lífshamingjuna þetta föstudagskvöld, við áttum fullt af brennivíni heima. Sólskin og peru-cider er bara svo gullin blanda eins og þeir vita sem til þekkja.

Athugasemdir

athugasemdir