Í dag eru 25 ár frá því að geimferjan Challenger sprakk í frumeindir 73 sekúndum eftir flugtak frá Canaveral-höfða (sem reyndar hét Kennedy-höfði frá 1963 til 1973 og olli nokkrum ruglingi í umræðum lengi á eftir). Ég man þennan atburð í janúar 1986 eins og hann hafi gerst í gær og fréttaflutninginn næstu mánuði á meðan Rogers-nefndin svokallaða rannsakaði tildrög slyssins í þaula og skilaði skýrslu sinni í júní. Þetta var ekki eini stórviðburðurinn á heimsvísu í ársbyrjun 1986 því sléttum mánuði seinna, 28. febrúar, var sænski forsætisráðherrann Olof Palme skotinn til bana á götu í Stokkhólmi og þótti ekki minni frétt á Norðurlöndum en Challenger-slysið. Þetta var viðburðaríkt ár, 1986, því eins hittust leiðtogar Sovétríkjanna og Bandaríkjanna í Reykjavík auk þess sem ég man eftir því mikla sjónarspili 3. október sem almyrkvi á sólu var og sást óvíðar betur en einmitt frá Íslandi.
Oft hef ég verið því feginn að komast í helgarfrí en sjaldan hefur sælutilfinningin verið svo kynngimögnuð sem í dag. Vikan gerðist verulega þung frá miðvikudegi að telja og átti hinn átta klukkustunda langi stefnumótunarfundur í gær sinn þátt í því. Hið opinbera er greinilega svipað alls staðar (eða víða), röflað fram og til baka á maraþonfundum í súrefnislitlum rýmum um einhvers konar útópíukennda framtíðarsýn þar sem hlutirnir gerast nánast af sjálfu sér í krafti svakalegs skipulags og svo gerist auðvitað aldrei nokkur skapaður hlutur nema að fólk heldur áfram að mæta í vinnuna á morgnana og fara heim seinnipartinn og fá laun fyrir þetta einu sinni í mánuði.
Síðustu 15 árin eða svo hefur þetta umræðuferli allt reyndar verið kryddað með tískuhugtökum á borð við benchmarking, team building, proactive, memorandum of understanding og öðru stéttarslangri (til er yfirgripsmeiri íslenskun á hugtakinu jargon en ég man hana ekki í svipinn) sem af einhverjum ástæðum má helst ekki þýða og á alltaf að vera á ensku á fundum og ráðstefnum. Ég sé ekki að neitt af þessu hafi breytt stjórnsýslu á nokkurn hátt til hins betra, þvert á móti hefur allt þetta mikla benchmarking gert hana illskiljanlega og fulla af krossgátukenndum skipuritum sem minna í besta falli á stjörnukort. Sennilega fæddu markaðsvitringar af sér þessi þokukenndu heiti til að tæla fjárfesta í einkageiranum og fjárlagahöfunda ríkismegin. Því miður virðist það á tímabili hafa tekist. (MYND: Norskur einfaldleiki í hnotskurn, ekki skrifa Røntgenlab 6 – 13, flestir myndu misskilja það.)
Þetta var alla vega frekar þrúgandi samkoma en haldin á hinu glæsilega Rica Park-hóteli hinu megin við Mosvatnet sem er plús. Hádegisverður var snæddur þar á veitingastaðnum Áttunda himni á 21. hæð og mátti þaðan sjá Stafangur í heild sinni auk þess sem sum nágrannasveitarfélaganna blöstu við og þótti hið fegursta. Annars var ég hálfmeðvitundarlaus megnið af deginum þrátt fyrir minnst 30 kaffibolla. Þegar komið var að minni deild að kynna skipurit sitt, framtíðardrauma og benchmarking og við sátum við pallborð fyrir framan salinn gat ég hins vegar ekki á mér setið þegar við vorum beðin um lokaorð og tók nettan snúning á notkun Norðmanna á veikindafrídögum sem þeir nota einmitt sem FRÍdaga. Heimspekin sem hér er ríkjandi um veikindadaga er reyndar alveg efni í sérstakan pistil og ég sagði það alveg kinnroðalaust framan í liðið að ég hefði aldrei á ævi minni upplifað annað eins í þeim efnum og laug engu. Mörgum þótti greinilega farið á óþægilegar slóðir en uppskar ég þó töluverð fagnaðarlæti í lokin. Á leiðinni heim í samfloti með tveimur samstarfskonum var mér tjáð kurteislega að ég hefði vaðið elginn þarna um efni sem auðvitað væri á almannavitorði en enginn þyrði að ræða tæpitungulaust á stærri samkomum. Það getur komið sér vel að vera utanaðkomandi í samfélaginu og ósnortinn af sosiale retningslinjer vinnumarkaðarins.