Eftir að hafa átt einstaklega vel heppnaðan dag við ritgerðarskrif, augljóslega eingöngu knúinn af drykkjuskap og leti páskanna, freistaðist ég inn á myndskeiðavefinn ÞúVarp (e. YouTube) núna áðan og fór að þvælast eitthvað þar. Meðal þess sem rak á fjörur mínar var gamli góði Dallas-inngangurinn sem fær flesta sem komnir eru aðeins yfir þrítugt til að missa þvag af fortíðarþrá. Ég rétt náði að halda í mér.
Ég hugsaði með mér hvað það væri mikil snilld ef einhver íslenskur stuttmyndafrömuður tæki sig til og byggi til svona inngang um bankahrunið. Það þyrfti varla meira en vanan stuttmyndaleikstjóra, þetta er innan við tvær mínútur. Þarna myndu nefnilega ýmsar aðalpersónur hrunsins falla eins og flís við rass að helstu mönnum Dallas. Ég sæi þetta fyrir mér þannig að Reykjavík kæmi í staðinn fyrir Dallas. Hús verslunarinnar getur verið glerturninn þarna og Fríkirkjuvegur 8 Southfork. Spurning með hlaupandi nautgripina, kannski bara fá íslensku sauðkindina í staðinn. Svo kæmi þetta í eftirfarandi röð:
Dallas – A Lorimar Production yrði Hrunið – A Landsbankinn Production
Þá kæmu leikendur:
Patrick Duffy = Jón Ásgeir Jóhannesson
Linda Gray = Ingibjörg Pálmadóttir
Larry Hagman = Björgólfur Thor Björgólfsson (spurning með hattinn samt)
Susan Howard = Þóra Hallgrímsson
Steve Kanaly = Lárus Welding
Howard Keel = Björgólfur Guðmundsson (mínus teinóttu fötin)
Ken Kercheval = Hannes Smárason
Charlene Tilton = Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Tilnefningar óskast fyrir Priscillu Presley, Victoriu Principal og Donnu Reed. Það var allt of lítið af konum í hruninu. Styttra fall auðvitað vegna meðalhæðar.