Blindur fær sýn og fleira

orninnÞað fer víst ekki hjá sjáandi fólki að nett litgreining og heimsóknir til ímyndunarráðgjafa (Landbúnaðar-Guðni á síðara hugtakið skuldlaust og er það fengið að láni) hafa átt sér stað hér á atlisteinn.is. Með öðrum orðum hefur liðurinn Tuð verður færður hér fram á forsíðuna svo nýjasti pistillinn birtist nú lesendum strax og þeir heimsækja mig. Er þetta í anda þeirrar nýju stefnu heimsbyggðarinnar að allt sé mouse click away eða ‘spönn-frá-smelli’ eins og almannatengsladeild mín kaus að þýða þetta hugtak. (MYND: Litgreining smitgreining! Við Kristján Örn Kristjánsson á ögurstundu.)

Nýja útlitið er reyndar hugarfóstur Ríkharðs Brynjólfssonar hjá Miðneti sem er minn helsti ráðgjafi í tækninýjungum og kann mun betur en ég á allt það heitasta í netmiðlum…ég er enn á Apple II-C-stiginu sem svo er nefnt og lýsir einfaldri frummennsku og algjöru íhaldi í hugmyndum um lýðnetið og möguleika þess. Já já, ég játa blákalt.

Í gær læddist loksins að mér sú hugmynd að ef til vill lyki ég MA-prófi í vor. Gerðist þetta þegar ég sat óvænt í tvo klukkutíma samfleytt við ritgerðarskrif og stóð aðeins upp til að ná mér í kaffi (sem var oft). Reyndar fleytir ritgerðinni fram. Svör við spurningalista þeim, sem ég lagði fyrir afbrotamenn landsins og fjallar um skoðun þeirra á nafnbirtingum grunaðra manna, streyma inn og stefnir í að ég nái inn svörum frá 50 manns svo sem lagt var upp með. Eins flæða inn svör frá erlendum fjölmiðlum um starfsreglur þeirra, nú síðast í kvöld frá Richard Clark hjá breska ríkisútvarpinu BBC. Eins hafa Hollendingar reynst óvenjufúsir í svörum. Merkilegt að þessar tvær þjóðir standi upp úr…

Þetta stendur þó og fellur með því að ég sitji á rassgatinu og skrifi ritgerðina svo ég ætla ekkert að vera að básúna hérna um hugsanleg afrek mín fyrr en þau hafa að einhverju leyti átt sér stað. Stóra spurningin er hvort ég nái þessu fyrir páska eins og stefnt var að. Líklegt er að minnsta kosti að ég nái að skila fyrsta uppkasti fyrir páska. Uppkast fyrir páska er ekki slæm útgáfa af morgunógleði en spyrjum að leikslokum.

Þá má ekki gleyma því að framhaldsnámskeiðið Norska 2 hófst með látum hjá Mími í kvöld og slíkt tekur tíma. Sérstaklega þar sem við klikkuðum á því sem hér var lofað 2. mars, að mæta í framhaldið eftir lestur á Samlede romaner og fortællinger-safni Knut Hamsun. Hneit þar.

Athugasemdir

athugasemdir