Bjórdægr mætask nú fæti

LowenbrauEinhverjir skála á Facebook og líkast til víðar fyrir bjórafmæli í gær enda 26 ár liðin síðan blessaður mjöðurinn var leyfður vorið 1989 og við félagarnir höfðum orðið okkur út um einhverjar tvær kippur af Löwenbräu, því ódrekkandi þýska helvíti, til að fagna þessu skrefi menningarinnar. Sterkari bjórdagstengingu á þó dagurinn í dag, 2. mars, hjá mér, og ekki við vorið 1989 heldur árið á eftir, 1990, en frá þeim eftirminnilega degi eru í dag 25 ár liðin.

Eins árs afmæli bjórsins árið 1990 bar upp á fimmtudag og taldi sami vinahópur, þá á fyrsta ári í framhaldsskóla og fær í flestan sjó, ótækt annað en að halda upp á þetta undir vígorðinu „Fáum oss ölteiti nokkura“ og þar vitnað í Eystein konung í Magnússona sögu Heimskringlu. Var drykkjan með rólegheitabrag framan af uns mjöð þvarr en menn þó allir þyrstir mjög og hugðu lítt til rekkju.

Einhver hafði spurnir af landakaupmanni nálægt miðbæ Reykjavíkur og var þegar skotið saman fé og bílstjóri fenginn og neyddur með hótunum og svívirðingum til fararinnar. Um síðir barst glundrið í hús og þótti allófagurt, gruggug marðarmiga sem minnti einna helst á tilberasmjör og fnykurinn eins og upp úr síki í Feneyjum á heitu sumarsíðdegi.

Ekki lét félagsskapurinn fagur- eða næringarfræðilega smámuni stöðva sig enda verið að halda upp á eins árs bjórafmæli og skyldi nú veita mæran drykk mjaðar og drukkið guðunum Óðni og Þór. Ég get nú ekki sagt að ég muni það sem eftir lifði kvöldsins í smáatriðum en hitt var ljóst að ég kom til meðvitundar í rúmi mínu að morgni föstudagsins 2. mars 1990 og klofnuðu þá himinn og jörð í höfði mér.

Hvílíkar þjáningar, ekki var við það komið að standa uppréttur svo ég gerði eins og Jón Hreggviðsson bóndi, lá á grúfu í fletinu en lét reyndar eiga sig að biðja drottin um tóbak, vín og þrjár frillur eins og sá mæti maður gerði. Þess í stað bað ég móður mína um skál og gubbaði svo í hana ókjörum af grænu sulli, þó með hléum. Þóttist ég þar kenna á ný landann góða frá bjórkvöldinu áður.

Skólasókn af minni hálfu kom ekki til greina þennan dag þótt kennsla í 3. bekk færi fram eftir hádegi þennan vetur, frá klukkan 13:20 til 19:00 á föstudögum, og Guðbrandur Benediktsson bekkjarbróðir minn ætti 17 ára afmælisdag (enda á hann 42 ára afmæli í dag svo þetta passar allt saman). Mæting var einfaldlega ekki til að tala um. Er þar með talið allt sem ég hef misst úr skóla eða vinnu um ævina vegna áfengisdrykkju og verður að þykja býsna vel sloppið.

Ég hætti að drekka bjór árið 1994, góðum landa má hins vegar yfirleitt koma ofan í mig enn svo líklega dró ég einhvern lærdóm af þessum sólríka föstudegi fyrir 25 árum.

P.s. Fyrirsögnin er vísun í erindi úr Austurfararvísum Sighvats Þórðarsonar þyki einhverjum hún ruglingsleg. Erindið í heild er svo:

Jór rinnr aptanskæru
allsvangr götur langar,
völl kná hófr, til hallar,
höfum lítinn dag slíta;
nú er þats blakkr of bekki
berr mik Dönum ferri,
fákr laust drengs í díki
dægr mætask nú fæti.

Athugasemdir

athugasemdir