Ola Borten Moe, nýbakaður olíu- og orkumálaráðherra Noregs, fer mikinn í viðtali við Stavanger Aftenblad í gær og segir það enga spurningu að vinna þurfi mun meira magn af olíu og gasi úr brunnum Norðursjávarins. Hann segist treysta á hugvit hæfra manna til að ná háleitum markmiðum í olíuvinnslu. Þetta myndi auðvitað hvaða olíuráðherra sem er segja, annað væri hálfasnalegt.
Það sem mér finnst hins vegar þungavigtarpunktur í viðtalinu er umfjöllun um norska ríkisfyrirtækið Petoro sem á stærsta hlutann af rannsókna- og vinnsluleyfum norska landgrunnsins. Þarna kemur fram að Petoro hafi, frá stofnun fyrir áratug, dælt yfir þúsund milljörðum norskra króna inn í olíusjóð Noregs. Þar af hafi 34 milljarðar komið á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Þetta eru hreint galnar tölur. Miðað við gengi dagsins í dag eru þúsund milljarðar norskra króna rúmlega tuttugu og eitt þúsund milljarðar íslenskra króna. Það er varla hægt að setja þetta í neitt samhengi. Gjaldþrot Seðlabanka Íslands er metið á 400 milljarða króna, það hljómar eins og klink í vasa í samanburðinum. Icesave er 640 milljarðar, það er aðeins lægri upphæð en Petoro skilaði af sér mánuðina janúar til mars í ár.
Þessar tölur sýna svart á hvítu hve gríðarleg verðmæti liggja í náttúruauðlindum norska landgrunnsins. Það nálgast klikkun. Annað sem nálgast líka klikkun er að Jens Stoltenberg liggur á öllum þessum olíumilljörðum eins og gráhærður ormur á gulli. Norðmenn nota olíupeningana ekki í neitt annað en að búa sig undir einhverjar svakalegar hamfarir. Þessa peninga á bara að geyma. Menntakerfið, löggæslan og heilbrigðiskerfið þurfa að gjöra svo vel og sýna stíft aðhald gegn því að fá um það bil sex prósenta hækkun í fjárlögum ár hvert.
Ég þekki það síðasttalda á eigin skinni þar sem ég starfa á sjúkrahúsi. Mér er sagt, undir rós, að ég skuli heldur drepa fólk en greiða því yfirvinnukaup. Nýja berkladeildin á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger, tækniundur þar sem sjúklingarnir dvelja í 30 fermetra einkastofum og eiga öll samskipti við lækna og hjúkrunarfræðinga gegnum sjónvarpsskjái, stendur tóm út árið 2012 þar sem ekki eru til peningar til að reka hana fyrr en þá. Ég hef gengið þarna um, þetta er eins og Chernobyl, allt á sínum stað en enginn á staðnum. Þetta er auðugasta land heims.
Ég fékk athugasemd við Eurovision-pistilinn á þriðjudaginn frá Loga (sennilega Bergmanni Eiðssyni) um að ársvelta RÚV væri fimm en ekki tveir milljarðar eins og ég skrifaði. Tengill á ársskýrslu RÚV frá því í fyrra fylgir með. Ég beygi mig fyrir þessu. Mín tala var tekin úr pistli sem ég skrifaði hér í maí í fyrra um Eurovision-kostnað Norðmanna en ég man ekki lengur hvar ég fann hana. Það ætti þó að hafa verið einhver marktæk heimild þar að baki. Engu getur maður treyst. Ég þakka fyrir að hafa gagnrýna lesendur að síðunni minni. Það er heiður.