Bic-raksápa – er það eitthvað út á skyr???

rakspaNú vill svo til að ég stunda mjög þá iðju að raka á mér hausinn – helst þannig að þar sé ekki annað gróðurs en augnhár og -brúnir. Kiljan segir af því í Sjálfstæðu fólki þegar Bjartur í Sumarhúsum rakaði af sér sumarskeggið en þetta var árviss viðburður hjá honum og athöfn sem hann fyrirleit mjög. Mér er ekki innanbrjósts sem bóndanum í Sumarhúsum þegar ég skerði hár mitt og skegg. Þvert á móti þykir mér afskaplega ljúft að vera laus við þennan píningsdóm af höfði mér og hef lítinn skilning á því hvers vegna þar vex yfirleitt hár og skegg sem virðist ekki til annars fallið en að vera fyrir.

Það var hins vegar ekki ætlan mín í þessum skrifum að ræða hina fínþráðóttari vefi hárvaxtar og þann ímugust sem ég hef á honum almennt heldur þá ömurð sem íslenskur raksápumarkaður er að verða í síaukinni dýrtíð og verðbólgu. Staðan var sú að ég var á leið til daglegrar líkamsræktar á föstudagsmorgni nýliðnum að aflokinni morgunvakt. Almennt framkvæmi ég allan minn rakstur í musteri Björns Leifssonar í Laugardalnum. Lýsing er þar góð og hitastig heppilegt til iðjunnar auk þess sem hann fær þá heitavatnsreikninginn en ekki ég.

Er ég ek Skúlagötuna verður mér það fyrst fyrir að koma við í 11-11 til að útvega mér raksápu enda staukur minn af Gillette-froðu þegar orðinn snauður af innihaldi sínu. Ég leita logandi ljósi um verslunina og finn rakdeildina von bráðar. Verður nú fyrir mér tvennt: Staukur af Gillete-rakgeli (ekki froðu), verðlagður á 984 krónur sem er auðvitað hvort tveggja, hneisa og sturlun, og á hinn bóginn sams konar gel frá framleiðandanum Bic sem ég hafði fram að þessu tengt ódýrum kúlupennum og handónýtum kveikjurum. Bic-gelið ber hins vegar verðmiðann 564 krónur sem mér þykir nú nógu brjálæðislega dýrt en þar sem þriðji kosturinn var eitthvað sem bar nafnið Satin Care eitthvað for her pleasure sá ég að hér átti við hin forna röksetning ‘aud est, aud non est, tertium non datur’, þ.e. annaðhvort eða, hið þriðja er ekki tækt. Kvensápan kostaði enda formúgu svo engin rök gátu mælt henni bót.

Það varð því úr að ég greip pennagelið og krónurnar 564 hurfu í rökkrið kalt og reimt. Frumrakstur minn með þessari forvitnilegu framleiðslu átti sér svo stað rúmri klukkustundu síðar, að þjáningu dagsins afplánaðri, og fann ég brátt að hin E-vítamínbætta Gillette-froða hefur nú svo sem vinninginn í gæðum en Bic-gelið náði þrátt fyrir það að ljúka keppni með nokkrum sóma. Þó veldur það mun meiri sviða en margir myndu kalla það hressandi í morgunsárið. Bic-rakgel: 7,2 af 10 mögulegum.

Athugasemdir

athugasemdir