Besti október sumra…ekki allra

DagbokÞriðjudaginn 2. október 1984 ritaði tíu ára pjakkur eftirfarandi í dagbók sína: Ég fór ekki í skólann í morgun vegna þess að það er verkfall. Æska landsins upp til hópa tók þessu óvænta fríi ágætlega svo sem von var, einn mánuður liðinn af kennslu haustsins og stórfínt að komast bara til baka í sumarfrí og það almenna áhyggjuleysi sem þessi aldur býður upp á.

Fáa óraði þó fyrir þeirri röskun íslensks samfélags, sem allsherjarverkfall BSRB allan októbermánuð fyrir réttum 30 árum, átti eftir að hafa í för með sér. Tollafgreiða þurfti skip á ytri höfninni í Reykjavík þar sem hafnsögumenn, hafnarstarfsmenn og bryggjuverðir voru í verkfalli og af sömu ástæðu var nánast engum innflutningsvarningi skipað í land nema lyfjum og öðrum brýnustu nauðsynjum sem undanþágur fengust fyrir. Almennur vöruskortur varð í landinu þótt líklega hafi hæstu óánægjuraddirnar tengst tóbaki og áfengi en margir jafnaldrar mínir muna ef til vill enn þá brandarann úr áramótaskaupi þessa árs þegar Laddi mætti í partý með sígarettustubba, rauðspritt og eina míníatúr-brennivínsflösku, „Vitið þið hvaðan þessi er?…Fagurhólsmýri!“

Þögn Ríkisútvarpsins var líklega minni kynslóð áþreifanlegasta birtingarmynd verkfallsins en þar gengu um 100 starfsmenn út mánudaginn 1. október þegar þeir fengu nánast ekkert útborgað (þeir voru þó ekki í verkfalli, væntanlega vegna laga um RÚV og öryggishlutverk þess) en ríkisstarfsmenn fengu aðeins greidd þriggja daga laun þennan dag auk þess sem ríkisvaldið fullnýtti þá heimild sína að halda eftir allt að 75 prósentum af launum ríkisstarfsmanna vegna skatta. Það síðasta sem heyrðist frá Ríkisútvarpinu nánast fram til næstu mánaðamóta var þegar Pétur Pétursson þulur settist í hljóðver við Skúlagötuna og las hádegisfréttir, nokkuð sem á þessum árum var talið jafnöruggt fyrirbæri og dauðinn og skattar. Sjónvarpsleysið fékk svo sinn skammt í skaupinu líka, „Ég sagði að við hefðum átt að kaupa vídeótæki, ekki þessa helvítis brauðrist!!“.

Morgunblaðið kom ekkert út frá mánaðamótum og þar til 23. október. Dagblaðið-Vísir hélt lengur út og kom út síðasta blaði laugardaginn 6. október með fyrirsögninni „Alvarlegar blikur á lofti“ í stríðsletri á forsíðu. Þrátt fyrir þær blikur taldi blaðið ekki nema sex síður og væri vafalítið safngripur í dag. DV kom næst út 23. október eins og Mogginn en laumaði þó út kálfinum DV Auglýsingar 16. október en honum var dreift ókeypis. Var þar, líkt og nafnið gefur til kynna, eingöngu um auglýsingar að ræða, meðal annars auglýsti Eurocard að í krafti samkomulags við matvörukaupmenn yrði ekkert afgreiðslugjald innheimt við matvörukaup og hefur vafalaust kætt marga húsmóðurina.Eurocard

Ýmsir valinkunnir menn sættu sig illa við að þjóðin fengi ekki að minnsta kosti að hlusta á útvarp í verkfallinu og urðu til ýmsar sjóræningjastöðvar, þar á meðal Fréttaútvarpið sem DV-menn héldu úti á FM 103, þar nafnkunnastir Ellert B. Schram, Jónas Kristjánsson og Sveinn R. Eyjólfsson, en líklega varð mestur úlfaþytur um Frjálst útvarp þeirra Kjartans Gunnarssonar, Hannesar Hólmsteins og Eiríks Ingólfssonar sem sendi út frá Valhöll og ruddist lögreglulið þar inn til að stöðva þessi stórfelldu brot á útvarpslögum. Hitti lögregla þar fyrir fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, sem brást hinn versti við, líklega með vindilinn í krumlunni og tíkina Lucy urrandi á kantinum. Var ráðherra legið á hálsi að hindra störf lögreglu og svaraði fyrir þetta í þrumuræðu í Sameinuðu Alþingi 11. október.

Hjá mér stendur eftir skemmtileg minning um þægilegan október en ljóst má vera hvílík hörmung þessi mánuður hefur verið opinberum starfsmönnum, ekki síst kennurum sem efndu til mikilla mótmæla við fjármálaráðuneytið og ráku þar Albert Guðmundsson út af með rauðu spjaldi í táknrænum gjörningi. Albert kom út á tröppur og ávarpaði kennara með þeim orðum að því miður sæi ríkið sér ekki fært að greiða laun nema gegn vinnuframlagi (þótt þar hafi nú svo sem oft verið pottur brotinn…).

Ég lauk þessu fína verkfalli BSRB með því að mæta óvart einum degi of snemma í skólann eða eins og ég hef fært til dagbókar miðvikudaginn 31. október, Ég vaknaði um sjö, borðaði og mamma keyrði mig í skólann en þá komumst við að raun um að hann byrjar á morgun. Sömu færslu lauk svo með þessum orðum: Sjónvarpið byrjaði í kvöld.

Athugasemdir

athugasemdir