Atvinnumál hér á heimilinu virðast vera að komast í endanlegt horf. Rósa fékk atvinnutilboð í gær frá flutningafyrirtækinu Logi Trans þar sem hún sótti um starf á lager fyrir nokkrum vikum. Um er að ræða hraðstækkandi fyrirtæki með starfsemi víða um Evrópu, þar af töluverða innan norska olíubransans. Af 30 umsækjendum voru fjórir boðaðir í viðtal og fékk hún tilboð um starf eftir vikulangan umhugsunarfrest stjórnenda fyrirtækisins. Kjörin voru þannig að kella samþykkti tilboðið eftir stutta umhugsun. (MYND: Höfuðstöðvar Logi Trans við Energiveien 7 á Tananger.)
Hún hefur störf á þriðjudaginn, 1. nóvember, og teljumst við þar með bæði fastráðin hjá norskum fyrirtækjum. Að ná því þrepi tók eitt og hálft ár (mínus tvær vikur) en norskir vinnuveitendur, opinberir sem einkareknir, spyrna við öllum útlimum áður en þeir bjóða fólki fastráðningu. Vinsælt er að halda starfsfólki sem afleysingafólki (n. vikar) árum saman en þá er hægt að losa sig við það á tveimur vikum, jafnvel tveimur mínútum. Þá er mikið um starfsmannaleigur en 3.300 slíkar eru starfræktar í landinu og höfum við þegar fengið að vinna hjá Proffice sem leigði okkur út á sláturvertíðina í fyrra. Að aflokinni fastráðningu er nánast engin leið að losna við þig nema þú segir upp sjálf(ur) eða drepir einhvern í kaffitímanum. Þannig eru norsk lög einfaldlega.
Við erum sem sagt í skýjunum þótt hér hafi reyndar verið glampandi sólskin í þrjá daga. Logi Trans hefur aðsetur á Tananger, líkt og NorSea Group, þar sem ég vinn, svo nú verðum við bæði að vinna í sögusveitarfélaginu Sola frá 1. nóvember, þar sem ýmsar persónur úr ritum Snorra Sturlusonar bjuggu, þar á meðal Erlingur Skjálgsson eins og ég hef skrifað um hér áður. Það sem mér finnst einna unaðslegast við þetta er að nú munum við eiga dásamlegar 40 mínútur saman í strætó á morgnana í stað þess að Rósa sé farin út löngu á undan mér til að mæta klukkan 07:00 á sjúkrahúsinu eða sé hreinlega steinsofandi þegar ég dregst meðvitundarlítill á lappir af því að hún á kvöldvakt. Hér eftir hefst vinnudagur beggja klukkan 08:00 og sami strætisvagn. Fullkomið líf eða hvað? Bifreiðakaup eru ekki á dagskrá fyrr en í júní 2013 svo grænn 50 sæta Volvo með aðgengi fyrir hjólastól verður okkar félagslegi raunveruleiki og samgöngumáti þangað til.
Ég tók rúnt um íslenska fjölmiðla núna áðan. Brottflutningur frá Íslandi hefur ekki verið meiri, en hann var á nýliðnum ársfjórðungi, síðan árið 2009. Frá hruni hefur mannfjöldi sem svarar íbúafjölda Ísafjarðar, Hafnar í Hornafirði og Norðurþings samanlagt flust frá landinu umfram aðflutta. Fimm á dag það sem af er þessu ári segir Mbl.is. Mikið skil ég þetta vel. Byggi ég á Íslandi í dag myndi ég hiklaust flytja þaðan fimm sinnum á dag.
RÚV var með frétt af athyglisverðri könnun MMR um traust landsmanna til einstakra stofnana á Íslandi og utan þess. Sjötíu og fimm prósent aðspurðra vantreysta bankakerfinu. Það er huggulegt. Bankakerfið getur þó huggað sig við að 5,9 prósent treysta því! Sextíu og sex prósent vantreysta ríkisstjórninni og 49 prósent vantreysta Evrópusambandinu.
Ríkisstjórninni er nákvæmlega sama um þessar niðurstöður, hún vill bara vera við völd, hækka skatta og segja hverjum sem heyra vill að allt gangi blússandi vel þangað til hún verður kolfelld í kosningum vorið 2013. Jóhanna Sigurðardóttir heldur því vígreif fram að aðildarumræðum við ESB verið lokið fyrir þær kosningar. Sú góða kona telur greinilega að ESB-umsókn sé svipað ferli og að panta pizzu hjá Domino’s. Mikil verða vonbrigði Samfylkingarinnar þegar Íslendingar kolfella svo samninginn góða í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 20XX (ekki 2013, svo mikið er víst) þótt auðvitað ætti Ísland vel heima í klúbbi gjaldþrota Evrópuþjóða. Andstaða við ESB hér í Noregi er um þessar mundir yfir 70 prósent samkvæmt könnunum. Árin 1972 og 1994 felldu Norðmenn ESB-aðild með 53 og 52 prósentum. Forvitnilegt væri að sjá útkomu þjóðaratkvæðagreiðslu núna. Eins hlakka ég mikið til íslensks þjóðaratkvæðis þegar það verður…