Metnaðarfullir rannsóknarleiðangrar atlisteinn.is um öldurhús Stafangurs og nágrennis eru hvergi nærri í rénun. Ég fjallaði um Viking Pub í miðbænum hérna fyrir mánuði, sjálfan Keisara Noregs þar sem kantmenn lífsins taka á móti sólskini í glösum sjö daga vikunnar. Nú er ekki síðri perla fundin við göngugötuna í Sandnesi, næsta bæ við Stafangur sem er í hjólafæri héðan frá Forus. Þarna er um að ræða Madame Åses Pub sem við römbuðum á í hjólatúr í gærkvöldi, aðallega vegna hávaðans sem þaðan barst. Fljótlega kom í ljós að þarna er menningarlegur staður á ferð og uppspretta hávaðans reyndist vera Ole nokkur sem lék fyrir dansi á forláta skemmtara og söng hástöfum með enda vel við skál. (MYND: Øydun Sandnesgoði, fágæt mynd af honum glaslausum.)
Aðrir gestir reyndust hin fjölbreytilegasta flóra og má þar fyrst frægan telja hinn goðsagnakennda Øydun sem gæti auðveldlega verið norsk endurholdgun sjálfs Egils Skallagrímssonar. Dróttkvæðin streymdu þó svo sem ekki frá honum enda sunnudagur og honum því væntanlega tregt tungu að hræra þrátt fyrir stanslausa bjórdrykkju. Við gátum ekki annað en sest þarna í nokkur glös áður en við hjóluðum heim. Fátt segir meira um þjóð en rónar hennar og rannsóknareðlið okkur auðvitað í blóð borið.
Annað ævintýri helgarinnar var langþráð ferð til eyjarinnar Sør-Hidle og veitingastaðarins Flor og Fjære sem þar er að finna. Aðstandendur staðarins kynna eyjuna sem nyrstu pálmaeyju heims og eiga þá fullyrðingu skuldlausa. Þarna eru pálmatré og alls konar hitabeltisgróður sem er hreint stórmerkilegt að þrífist við Noregsstrendur. Þarna svignuðu framandi tré undan sítrónum, mandarínum og ég veit ekki hverju, gullfiskar á sterum svömluðu um tjarnir og sjálfvirk garðsláttuvél ók um tún ein og óstudd – algjör 2007-varningur og þarfaþing allra garðeigenda sem vilja leggja meiri áherslu á að drekka áfengi í garðinum sínum en að vinna í honum. (MYND: Heilsuðum upp á þennan niðri í bæ rétt fyrir siglingu. Hann vegur 70 kg að sögn eigandans sem bætti því við að það væri sko ekki neitt, pabbi hans (hundsins þ.e.) væri 98 kg. Það er hvorki meira né minna en upp á gramm það sem ég vigtaðist eftir æfingu í síðustu viku.)
Við fengum mjög hlýtt veður á laugardaginn. Fín stemmning var í bænum og allt á suðupunkti vegna einhvers fótboltaleiks. Klukkan 17:00 var siglt af stað út í eyju og eftir komuna þangað var hópnum skipt í þrennt, einn með enskumælandi leiðsögumanni og tvo með norskum. Svo röltum við þarna um í þægilegri stemmningu og hlustuðum á ýmsan fróðleik um ræktun skrautjurta. Meðal annars var gengið fram hjá lengsta bambus Noregs (að þeirra sögn) sem var reyndar ekkert annað en einhver spíra sem stóð lengst upp í loftið. Þannig á bambus sennilega að vera, ég er ekki sérfróður um slíkt.
Eftir skoðunarferðina var hópnum raðað til borðs í mjög smekklegum borðsal í stóru einlyftu bjálkahúsi við ströndina. Hús og húsbúnaður nánast allur, að gluggum undanskildum, er úr ljósri eik, svo stífbónaðri að stirndi á. Áður en matur var fram borinn steig hollenskur yfirkokkur staðarins fram og sagði þar frá lífi sínu í löngu máli á mjög frambærilegri norsku. Einkum kvartaði hann yfir því að hann hefði unnið í 12 ár á staðnum sem væri allt of langt. Hann vakti þó töluverða kátínu en forðaðist greinilega að segja nokkuð um væntanlegan mat.
Við völdum okkur rauðvín frá Suður-Afríku og hófum svo át mikið en máltíðin var með hlaðborðssniði. Prýðileg sjávarréttasúpa var í forrétt en þar að auki var aragrúi misgómsætra rétta í boði. Af meðlæti má nefna grænar ólífur á stærð við lítil epli sem hreinlega hljóta að hafa verið framleiddar með einhverju ólöglegu. Sama er mér, ég hef aldrei getað lagt mér ólífur til munns. Eftir þessa ágætu máltíð tylltum við okkur út á stóra verönd þar sem hafið gjálfraði í nokkurra metra fjarlægð. Þarna út létum við bera okkur kaffi og koníak og nutum svo hægrar kvöldgolunnar þar til haldið var til hafnar í Stafangri á nýjan leik. (MYND: Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð. Norskt mandarínutré í eigin persónu.)
Það er alveg óhætt að mæla með ferð í Flor og Fjære. Fast verð á mann er 840 krónur fyrir mat og siglingu en auðvitað greitt aukalega fyrir vín. Helgarnar eru þó dýrari og eins fer verðið eftir því hvort farin er fyrri eða seinni ferð en þeir sem fara í fyrri ferðina borða hádegismat á staðnum og eru svo farnir áður en kvöldverðarhópurinn kemur. Sør-Hidle er gríðarlega flott eyja, um það verður engu logið, og gróðursældin mjög grunsamleg miðað við hnattstöðu. Þetta er svona staður sem passlegt er að heimsækja einu sinni á ári og helst yfir hásumarið. Reyndar er bara opið frá maí til september svo það liggur nánast í hlutarins eðli. (MYND: Framhlið veitingastaðarins og veröndin góða.)
Í þessari viku er meiningin að ná í fyrsta sinn þeim árangri að hjóla til og frá vinnu alla dagana, samtals 21 kílómetra á dag. Við ætlum svo sem ekkert að safna áheitum en ég slæ þessu fram hér til að freistast síður til að flýja á náðir strætisvagnakerfisins. Þessar morgunhjólreiðar vilja hafa á sér mjög óhugnanlegan blæ þegar maður er nývaknaður og fyrstu þrír kaffibollarnir ekki komnir niður.