Bætur, pillur og brennivín

atvinnuleysiJæja, klukkan 09:00 í morgun bættist ég formlega í stækkandi hóp atvinnulausra Íslendinga þegar ég lauk störfum hjá 365. Ekki mun ég sakna þess að vakna klukkan fimm á morgnana en margs annars mun ég sakna á þessum ágæta vinnustað, kynntist þarna bunka af prýðisfólki.

Fyrirsögnin passar ekki alveg, auðvitað fæ ég engar atvinnuleysisbætur þar sem ég er skráður nemandi við Háskóla Íslands. Ég sótti hins vegar um mín fyrstu námslán í nóvember og reyndist þá fá heilar 508.000 krónur fyrir allan veturinn. Fyrri helmingurinn af þeirri upphæð ætti að birtast núna upp úr áramótum drattist ég til að ná öllum fögum. Mér verður til lífs að Alþingi samþykkti áframhaldandi útgreiðslur séreignasparnaðar, eina vitræna ákvörðunin sem tekin hefur verið lengi í þeim Icesave-mettaða fílabeinsturni.

Lífið er sem sagt fínt. Núna ætla ég að vera fullur í tvo daga en 1. janúar tekur að vanda við minn árlegi tveggja mánaða þurrkur sem stendur til 1. mars. Þetta er eitt það snjallasta sem ég hef gert um dagana. Fyrsti sopinn í mars er eins og endurfæðing eftir hreinsunina á undan og aldrei bregst það að þá verður átta vikna eyðimerkurganga alltaf þess virði. Hérna má sjá myndskeið af fyrsta sopanum 1. mars 2009.

Lokastykkið mitt á Vísi var viðtal við aðila úr hópnum sem sletti málningu á hús Steingríms Wernerssonar aðfaranótt 11. desember. Hérna má lesa það. Fegurðin við að vera ekki lengur starfandi fjölmiðlamaður er að nú get ég fyrst farið að láta skoðanir mínar vaða umbúðalaust án þess að gæta (eða reyna að gæta) hlutleysis fréttamannsins. Ég lýsi því þess vegna hér með yfir að ég er SUDDALEGA ÁNÆGÐUR MEÐ ÞETTA LIÐ og vona að það drekki þessum bankahálfvitum og útrásarfíflum í rauðri málningu meðan moldir og menn lifa. Þessi skítseiði eiga að fá þannig meðferð og umfjöllun að þeir geti hvergi í heiminum um frjálst höfuð strokið. Allra helst eiga þeir auðvitað heima bak við lás og slá en svoleiðis má ekki gera á Íslandi. Þar fara bara menn sem stela súpupakka úr 10 11 í fangelsi. Maður fyllist öryggistilfinningu.

Nú ætla ég að blanda mér aðeins í glas…

Athugasemdir

athugasemdir