Atvinnutilboð í hús

stavangerVið erum komin með vinnu í Noregi. Póstur beið okkar á miðvikudaginn frá Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger þar sem við munum starfa við ræstingar í sumar. Ekki bjóst ég við að eiga eftir að starfa innan heilbrigðisgeirans! Þetta var ekki baráttulaust. Mér telst til að tímabilið nóvember til mars höfum við sótt um tæplega 200 störf í Stavanger og nágrenni. Upp úr krafsinu höfðust tvö boð í atvinnuviðtöl, sem reyndar eru útistandandi þar sem við erum enn hér á landi, og að lokum atvinnutilboð til okkar beggja. (MYND: Stafangur, verðandi heimili okkar og fjórða stærsta borg Noregs. Í nágrenninu er Hafursfjörður þar sem Haraldur hárfagri barði niður síðustu skipulögðu mótspyrnuna innanlands.)

Þetta er áfangasigur. Um er að ræða sumarafleysingar svo við höfum vinnu fram á haust. Sumarið verður sem sagt notað í framhaldsatvinnuleit en miðað við það sem vinafólk okkar þarna úti segir er norskur vinnumarkaður að þessu leytinu til svipaður því sem hér tíðkaðist fram til 1990. Ef þú ætlar að fá vinnu tekurðu hatt þinn og staf og gengur á milli vinnustaða með meðmælabréf og fermingarbrosið. Ég er svo sem ekki í æfingu, gerði þetta einu sinni held ég. Það var reyndar einmitt vorið 1990 eftir að ég hafði lokið 3. bekk í MR. Þá þræddi ég fiskvinnslufyrirtæki í Hafnarfirði og víðar en uppskar að lokum vinnu hjá lager Efnaverksmiðjunnar Sjafnar í Garðabæ. Þar átti ég tvö ágæt sumur og gaman að segja frá því að þrátt fyrir æsku náði ég að vinna hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Ég á launaseðlana því til sönnunar. Fullt starf gaf 52.000 krónur á mánuði og enginn skattur, þökk sé gamla námsmannaskattkortinu. Muna lesendur eftir þeim?
preikestolen
En aftur til Noregs. Það er léttir að við höfum nú fastan punkt. Nú vitum við um það bil hvar við munum leita hófanna um leiguíbúð og þetta er einhvern veginn allt að verða mjög raunhæft og nálægt. Ef ég ætti ekki eftir að þrælast gegnum þessa MA-ritgerð væri ég núna að troða dóti ofan í kassa. Mig býður í grun að það verði allt gert í stresskasti með gám frá Eimskip í innkeyrslunni. Þar á bæ segja menn mér að ég megi búast við að greiða um 700.000 kr. fyrir búslóðagám héðan og heim að dyrum í Stavanger sé einhver forvitinn um það. Þá er miðað við að Eimskip taki einnig að sér að aka gámnum frá Fredrikstad til Stavanger. Verður maður ekki að þiggja það og taka þátt í að snúa þessum frægu hjólum atvinnulífsins? Sennilega. (MYND: Náttúruundrið Preikestolen við Lysefjörð, einn helgistaða ‘base’-stökkvara (e. base jumpers) í heiminum.)

Athugasemdir

athugasemdir