Áþreifanleg verðmæti

fiskurSilfrið skein skært hjá Agli í dag, þéttur pakki af viðmælendum. Alþjóðlegi skuldasérfræðingurinn Jurishevko (fyrirvari um rithátt sem er eftir minni) stendur þar upp úr, frábært að fá erlendan sérfræðing sem rekur stígvélið almennilega á kaf með einföldum en nánast alveg skotheldum rökum. Við megum alveg við því annað slagið til að fleyta kúfnum af hinni íslensku þjóðrembu.

Þessi kall er ekki bara sérfræðingur í skuldamálum ríkja og skuldastýringu heldur er hann sjálfur fjárfestir og því klárlega í aðstöðu til að renna aðeins yfir helstu staðreyndir hrunsins mikla með öllum eftirskjálftum. Af sömu ástæðu má ætla að aðrir fjárfestar ljái honum eyra enda sagði hann að þeir væru sennilega ekkert að missa sig af spenningi yfir fjárfestingarkostum hérlendis.

Þá átti minn gamli skólabróðir úr MR, Ó. Reynir Guðmundsson (hans eigin ritháttur og fyrir vikið aldrei nefndur annað en Ó. Reynir í daglegri umræðu), stórleik með spillingarumræðu og útskýringum á brestum íslensks samfélags sem hann líkti við Grikkland og allt flöktið á peningamálum þar. Síðast en ekki síst má Ó. Reynir eiga það alveg skuldlaust að hann kann á sitt PowerPoint! Annað en ég sem festist alltaf strax í byrjun í því hvernig eigi að setja sameiginlegan bakgrunn á allar glærurnar (ég er með 2003-útgáfuna).

Andrés Magnússon læknir vakti mig líka til umhugsunar með frásögn sinni af Lífeyrissjóði lækna og spurningum um hvar hið raunverulega ákvörðunarvald í sambandi við fjárfestingarkosti lífeyrissjóða liggi eða hafi legið á meðan allt lék í lyndi. Annar mjög frambærilegur punktur hjá Andrési var að í gamla daga (svona alvöru gamla daga, fyrir miðja síðustu öld) hefðu engin auðæfi orðið til hér á landi af öðru en áþreifanlegum verðmætum. Fiskurinn í sjónum, framleiðsla og eitthvað sem maður gat (oftast) haldið á í höndunum var hinn raunverulegi brunnur eigna. Hlutabréfamarkaður var hér smár og frumstæður fram eftir öllu og eignin alltaf sýnileg. Síðustu 20 árin hafa svokölluð verðmæti þróast út í að vera mest tölur á skjám sem byggjast á sífellt óskiljanlegri forsendum og verða óáþreifanlegri með hverju misserinu. Venjulegt fólk sér sjaldnast eða handleikur reiðufé eftir að kortabyltingin mikla hófst og það er bara eitt lítið dæmi.

Það er ánægjulegt að sjá menn velta upp gömlum og góðum grunngildum í umræðunni og koma þeim frá sér á einfaldan hátt. Einfaldleiki er eitthvað sem er farið að skorta verulega í umræðum dagsins og sá hópur fer minnkandi sem skilur umfjöllun um efnahagsmál og þá hugtakaflóru sem skotið hefur upp kollinum á þeim vettvangi. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt orðið kúlulán fyrr en undir lok ársins 2008 og gæti nefnt fleiri ný og illskiljanleg hugtök.

Athugasemdir

athugasemdir