atlisteinn.is tveggja mánaða

mynd bjoggaÓfreskjan hefur slitið barnsskónum og er hægt og bítandi að verða að byltingarkenndu, ósiðlegu og óseðjandi afli í samfélaginu síðan fæðingin átti sér stað 1. febrúar. Samkvæmt tölfræði frá bakhjörlum síðunnar fjölgaði heimsóknum nýrra lesenda til dæmis um 62,3 prósent í síðustu viku og algjör bylting varð þegar dálkurinn Klósett vikunnar á atlisteinn.is tók upp samstarf við dr. Gunna og Okursíðu hans en þá viku jókst umferð um síðuna um heil 370 prósent. Þetta segir auðvitað ekki neitt, tveimur lesendum gæti hafa fjölgað í átta og það væri 400 prósenta aukning. Þessir átta gætu svo allir verið ég sjálfur að fara inn á síðuna frá mismunandi tölvum. En þannig er það nú ekki.

Myndina af mér hér til hliðar tók Björgvin Hilmarsson, líffræðingur og ofurljósmyndari, skólabróðir minn í hagnýtri fjölmiðlun veturinn 2001 – 2002 og hreinn snillingur. Björgvin hefur gefið út ferðahandbók um Ísland á finnsku í samstarfi við Satu, unnustu sína. Geri aðrir betur.

Vinur Björgvins er Ragnar Freyr Rúnarsson sem er bakbeinið í aprílgabbi Vísis í dag. Ragnar Freyr heldur úti alveg hreint magnaðri síðu um bjór, sem er greinilega hans ær og kýr, af slíkum styrk að ást mín á gini og tónik er nánast fyrirlitning í samanburði. Á síðunni birtir Freyr endalausan fróðleik um bjór og umsagnir um svo margar tegundir að maður hlýtur að draga þá ályktun að maðurinn sé með lifrarbilun á krónísku stigi. Auk alls þessa rekur Freyr þessi Bjórmenningarfélagið Kidda sem er varla nein AA-samtök. Frábært framtak og tveir þumlar upp, jafnvel frá manni sem smakkar ekki bjór.

atlisteinn.is óskar lesendum sínum gleðilegs vors og ánægjulegs sumars og vonast um leið til þess að spár Sigurðar storms Ragnarssonar í fréttum dagsins um hlýindi, betri tíð og blóm í haga muni eiga við góð rök að styðjast.

Athugasemdir

athugasemdir