Þetta er hreint alveg frábær nafngift Ríkisútvarpsins á þingmannanefnd Atla Gíslasonar um landsdómsmálið. Ég ætla að stofna útibú frá Atlanefndinni hér í Noregi þegar í stað. Óljóst er þó um hvað sú nefnd muni fjalla en það er algjört aukaatriði, aðalmálið er að hér sé starfandi Atlanefnd.
Sjónvarpsfréttir RÚV í gær voru stútfullar af athyglisverðu efni. Þar var meðal annars fjallað um fólksflutninga frá landinu á þessu ári sem gert er ráð fyrir að slagi í 6.000 manns. Mig undrar það ekki. Kastljós dagsins í dag var ekki síður eftirtektarvert. Þar ræddi Helgi Seljan við Agnesi Arnardóttur, verslunarkonu á Akureyri, sem berst í bökkum við að reka fyrirtæki sitt vegna afstöðu Landsbankans til lánastöðu fyrirtækisins. Landsbankamenn segjast, að sögn Agnesar, munu líta í hina áttina á meðan hún skipti um kennitölu á fyrirtækinu sé hún reiðubúin til þess.
Þessi saga er keimlík sögu ótal annarra skuldunauta íslensku bankanna og ekki virðist ástandið skána eftir því sem frá líður bankahruni. Mjög lífseig saga er sú að bankarnir setji fyrirtæki á hausinn að gamni sínu og færi þau vildarviðskiptavinum, hópi sem hlýtur að fara ört minnkandi…eða fer hann kannski stækkandi? Lokaorð Agnesar í Kastljósinu voru þau að þessu lyktaði með því að þau pökkuðu niður í ferðatösku og færu burt af landinu ef bankinn sæti við sinn keip sem hann mun vafalaust gera.
Snillingurinn í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Árni Páll Árnason fyrrum bankaráðsmaður í Kaupþingi, virðist láta sér það í léttu rúmi liggja hvort hann og hans vitlausa ríkisstjórn muni að lokum gera Ísland algjörlega óbyggilegt fyrir þorra fólks og það í góðri samvinnu við hóp af gjaldþrota bönkum.