Aþena, hvar eru dætur þínar?

kavariÁrleg jólakort frá fósturdætrunum okkar Rósu á Indlandi og í Pakistan bárust í dag. Ég verð nú að játa að ég er frekar svekktur yfir því að Rósa fær alltaf mun metnaðarfyllra kort en ég, heillangan texta með einkunnum og allt á meðan mín skrifar bara gleðileg jól og nýtt ár auk þess að teikna mynd af fiðrildi. Rósa er svo sem búin að styrkja sitt barn lengur en ég sem fylgdi bara í fótsporin af forvitni og ákvað að prófa þetta eftir að við ákváðum að vera ekkert að standa í því að eignast börn sjálf…við hreinlega nennum því ekki úr því sem komið er enda nóg til af börnum í heiminum. (MYND: Bréfið frá dóttur Rósu, einkunnir og meira að segja varalitaður koss!)
roma
Fósturdóttir mín kostar mig 3.000 kall á mánuði og fær fyrir það skólagöngu og tvær máltíðir á dag sem verður að teljast vel sloppið. Þegar ég valdi hana á heimasíðu ABC-barnahjálpar haustið 2008 kom fram í kynningartexta að pabbi hennar væri pípulagningamaður. ‘Aha, flott að hafa pípara í fjölskyldunni,’ hugsaði ég áður en ég las smáa letrið þar sem fram kemur að nýi píparinn minn situr í fangelsi í Pakistan fyrir morð og er ekkert á leiðinni að mæta hingað og gera við vask eða klósett á morgun. (MYND: Allt sem ég fékk…skitin mynd af fiðrildi. Er ég einhver skordýrafræðingur eða hvað???)

En auðvitað rennur manni blóðið til skyldunnar að koma börnum í einhverjum vítisholum til aðstoðar (reyndar eru bæði Indland og Pakistan kjarnorkuveldi eða verðandi slík á meðan Ísland er bara eitthvert gjaldþrota drasl úti í hafi) fyrst það kostar ekki fleiri krónur en þetta. Ég fann út með þríliðureikningi að það tekur mig að meðaltali þrettán mínútur að drekka áfengi fyrir þá upphæð sem ég styrki barn til mennta og tveggja máltíða á dag fyrir í heilan mánuð annars staðar á hnettinum. Hvað ætli brennivín kosti þá í Pakistan???

Athugasemdir

athugasemdir