Á öðrum degi Íslandsdvalarinnar var farið í venjuhelgaða heimsókn á Argentínu steikhús, einn af föstustu punktunum í veitingahúsatilveru okkar hjóna. Ég á ekki hund svo einu skiptin í lífinu sem mér finnst ég skipta einhverju máli er þegar ég geng inn um þessar dyr á Barónsstígnum og beint í hlýjan faðm starfsfólksins sem veit að ég kýs að byrja upplifunina með einum til tveimur gin og tónik við arininn. (MYND: Þjónagengið dregur fram allt sitt langlundargeð gagnvart fullum túristum frá Noregi sem heimta myndir, sósu og salat. Benedikt Jónsson fær bestu þakkir fyrir meðhöndlun á hvítu augnendurskini og Baldur og Beggi fyrir viðleitni í sama máli. Takk strákar!)
Argentína skartar nú nýjum yfirþjóni, Þórði Viðari Gunnarssyni, en okkar gamli vinur, Kristján Nói Sæmundsson, er genginn Bláa lóninu á hönd og starfar þar við hlið Kára bróður míns.
Eins og ávallt voru móttökurnar á Argentínu ekkert annað en höfðinglegar, þetta er algjörlega okkar uppáhaldsstaður á Íslandi og má mikið ganga á ef við náum ekki að troða inn heimsókn þangað hvert skipti sem við stígum fæti á landið. Það tekst oftast en sennilega borðum við að meðaltali tvisvar á ári við Barónsstíginn. Ég kemst alltaf í hátíðarskap þegar ég kem inn í forstofuna, finn daufa lyktina af arineldi og veit að nú á ég gott í vændum og fer ekki öðruvísi út en reikull í spori af mungáti og stútfullur af úrvals nautakjöti.
Þórður Viðar skartaði einvalaliði af starfsfólki þetta laugardagskvöld, 20. júlí, og er ekki örgrannt um að vægur skjálfti hafi leikið um útlimi mína þegar hinn stimamjúki Ólafur Júlíusson birtist við borðið okkar með flösku af Peter Lehmann Mentor, því eina rauðvíni sem við kjósum okkur á þessum stað (þökk sé Jóhanni Gunnari Baldvinssyni í mjög eftirminnilegri heimsókn 4. apríl 2007). Sem betur fer er frúin vínsmakkarinn í hópnum því ég ætlaði hreinlega ekki að tíma að taka mér fyrsta sopann af þessu vökvakennda flaueli. Gerði það nú samt fljótlega.
Svíki minnið ekki hef ég borðað reglulega á Argentínu allar götur síðan 1990 er ég heimsótti staðinn í fylgd foreldra minna. Það er því merkilegt frá því að segja að heimsóknin núna í júlí var sú fyrsta sem nautakjötið var ekki allsráðandi hjá mér. Eftir algjört smaksopplevelse (eins og Norðmenn kalla það) með hinni rómuðu humarsúpu staðarins, sem ég virðist hreinlega panta ósjálfrátt þrátt fyrir að lesa alltaf allan forréttalistann, ákvað ég eftir mjög erfitt þrátefli við sjálfan mig og næstum heila flösku af Peter Lehmann Mentor að skella mér á svokallaða tvennu af nautalund og lambafille sem stóð fullkomlega undir þeim væntingum sem ég hafði gert mér.
Aldrei þessu vant ákváðum við að láta eftirréttinn eiga sig (eins og það hefði skipt einhverju máli miðað við ástandið á mér eftir þetta sumarfrí) en í meðalári verður þar fyrir valinu heita valrhona-súkkulaðitertan með blautum kjarna og ís, hinn fullkomni mittisútvíkkari enda látum við yfirleitt nægja að deila einni samviskunnar vegna. Kaffi og koníak var hins vegar ómissandi til að þjófstarta kvörn meltingarinnar og brást Ólafur Júlíusson þjónn ljúfmannlega við þeirri beiðni minni að velja koníak eftir eigin smekk…ég hef ekkert vit á þessu, drekk það bara.
Í heildina fimm stjörnur af fimm mögulegum fyrir enn eitt ógleymanlegt kvöldið á Argentínu. Við gengum alsæl út og beint í flasið á Steinari Frey Gíslasyni og frú sem buðu okkur rakleiðis heim til sín í drykkju. Þaðan bárust leikarnir á tónleika á einhverju Kex Hostel-fyrirbæri sem ég kann engin deili á og ég veit ekki hvað. Maður fylgist ekkert með þróuninni í íslensku næturlífi eftir sóknina austur…