Arendal bannar betl – og er mótmælt

BetlArendal heitir sveitarfélag nokkurt í fylkinu Aust-Agder sem er hér ekki svo langt frá. Þar hafa kjörnir stjórnendur bæjarins nú riðið á vaðið og bannað betl á götum úti, er Arendal fyrst norskra sveitarfélaga til að innleiða slíkt bann og tók það gildi í gær. (MYND: Arendals Tidende)

Þá ber svo við að hópur mótmælenda birtist með gný miklum og tekur að mótmæla þessu óréttlæti með þeim málflutningi að ekki sé hægt að banna bágstöddum að leita sér hjálpar auk þess sem lögregla bæjarins hljóti að hafa öðrum hnöppum að hneppa en að eltast við ölmusufólk. Meðal mótmælenda er fatlaður Norðmaður í hjólastól sem NRK greindi frá í gær en sá betlar nú á götum Arendal í mótmælaskyni og er það líklega í fyrsta sinn í heiminum sem betl á sér stað á þeim forsendum. Eins tók ríkisútvarpið ítarlegt viðtal við eina (eða alla vega mest áberandi) betlara bæjarins, rúmenska konu sem varði dögum sínum við betl í miðbænum og gagnrýndi stjórnvöld harðlega í viðtalinu fyrir að skera á þessa lífæð hennar.

Betlarar (og útigangsfólk) í Noregi hafa verið býsna umdeild stétt síðustu ár svo ekki sé meira sagt. Hér í Stavanger og nágrenni spretta reglulega upp harðar ritdeilur um málefnið í málsmetandi fjölmiðlum auk þess sem stjórnmálaforkólfar munnhöggvast í fréttaviðtölum og sýnist sitt hverjum. Algengt viðhorf Norðmanna er að betlarar eigi almennt lítinn rétt þar sem þeir hafi í raun engan áhuga á að vinna fyrir sér og greiða skatta til samfélagsins, þeir ætli sér einfaldlega að vera betlarar, hafi sérhæft sig í þeirri iðju og ferðist jafnvel milli Evrópulanda í þessari viðleitni eftir því hvernig blæs í efnahagslífinu.

Lögregla í Arendal hefur, þegar þetta er skrifað, ekki haft sig í frammi gagnvart mótmælendunum og margir spyrja sig hvernig hún muni í raun framfylgja banninu gagnvart raunverulegum betlurum, til lítils sé að beita sektum gagnvart fólki sem ekki hefur aðrar tekjur en klink í einnota kaffimáli og vistun í fangaklefi hljóti að teljast takmörkuð refsing gagnvart heimilislausum.

Nú verður spennandi að sjá hvort fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið og banni betlurum framferði sitt og, ef svo fer, hvort mótmæli heimamanna spretti þá upp á fleiri stöðum. Ég er sérstaklega áhugasamur, út frá félagsfræðilegu sjónarhorni, um hver viðbrögðin yrðu í Stavanger þar sem hvað hæst hefur verið rifist um betl á götum úti.

 

Athugasemdir

athugasemdir