Ambögur dauðans – fyrir flikki og aðra lengra komna

hamborgarhryggurÞar sem ég hef stundum verið að tuða yfir málfari hérna og á Facebook ætla ég að koma með eina gullna og án efa mjög pirrandi stöðuuppfærslu í viðbót til að hjálpa sumum vinum mínum gegnum jólin og koma í veg fyrir að þeir verði sér til (enn frekari) skammar.

Mér þykir leitt að vera boðberi þeirra tíðinda að það er ekki til neitt fyrirbæri sem heitir hamborgarahryggur nema ef vera skyldi maður sem er mjög svekktur yfir að fá ekki hamborgara. Þessi svínaafurð sem þið sum teljið ykkur vera að tala um heitir hamborgarhryggur (mínus a númer þrjú sem sagt) og er af einhverjum ástæðum kennd við Hamborg, gamalt höfuðvígi Hansakaupmanna í Þýskalandi. Í almáttugs bænum tileinkið ykkur þetta. Fyrir fólk sem er áhugasamt um þessa leiðréttingu og móðgast ekki mikið…

…er heldur ekki til neitt sem heitir mánaðarmót nema ef þið haldið ættarmót einu sinni í mánuði. Það er ekkert r, orðið mánuður er í fleirtölu, hve mörg mánaðamót þekkið þið þar sem aðeins einn mánuður á hlut að máli?

…er orðið fjölkynngi ritað með tveimur n-um nema þið séuð að fjalla um fjölmennt matarboð þar sem margir koma saman og kyngja mat, þá má það alveg heita fjölkyngi. Kynngi í fjölkynngi er komið af sögninni að kunna og lýsingarorðinu kunnugur, þ.e. sá sem býr yfir fjölkynngi er fjöl-kunnugur, kann sem sagt fjöldamörg brögð og klæki….jafnvel stafsetningu.

…er heldur ekki hægt að fara erlendis þegar maður fer til útlanda. Annaðhvort fer maður utan, er staddur erlendis eða kemur erlendis frá en maður fer yfirleitt ekki erlendis, alveg sama hve mörg hundruð prósent fjölgar um í farþegafjölda Icelandair til eða frá Íslandi.

Ætlar þú að bjóða vinum þínum upp á ömurlegar ambögur og almenna málhelti á Facebook um jólin, helvítis flikkið þitt? Ég hélt ekki. Gleðileg jól og farsælt helv…

Athugasemdir

athugasemdir