Almenn grillun hefst

Hitaþol mitt er frekar takmarkað. Þegar við fórum í fríið til Búlgaríu 2007 fann ég hamingjuna með loftkælinguna í herberginu í botni og stillta á frost. Undir henni sat ég sæll með gin & tónik og kældi mig niður til að geta þolað stutta áfanga í mollunni úti á svölum. Sumir myndu spyrja hvers vegna ég leggi á mig sumarleyfisferðir til svo heitra áfangastaða og það get ég auðveldlega rökstutt: Lítri af vodka á 99 íslenskar krónur er þess virði að ferðast alla leið að strönd Svartahafs fyrir. Núna er þetta sennilega dýrara eftir hrun hins ástkæra gjaldmiðils þjóðarinnar.
svalir
Þessum inngangi er ætlað að lýsa skelfingu minni yfir þeim hita sem virðist í uppsiglingu hér í Stafangri. Núna um helgina var alveg svakaleg blíða hérna og hitinn í sólskini svona nálægt efri mörkum þess sem ég þoli en það er eitthvað í kringum 25 gráður. Enn hugsa ég með skelfingu til nokkurra daga í röð í Vínarborg sumarið 1999 þegar hitinn náði 40 gráðum og maður brenndi sig hreinlega ef maður hreyfði sig of hratt. Fyrir utan að svitna eins og hóra í kirkju bara við að ganga um innan- eða utandyra. Hryllingur. (MYND: Hitapottur á svölunum í Storhaug. Hjalli Boggu lengst t.h. Á Egilsstöðum er fólk kennt við móður sína.)

Ég slapp undan helginni með sólbruna en ekki fleiri alvarleg einkenni. Eftir ágæta æfingu í SATS niðri í bæ á laugardaginn þáðum við heimboð hjá Austfjarðatröllinu Hjalla Boggu (Hjálmar Eðvaldsson í þjóðskrá) og meðleigjanda hans, hinum geðþekka hjúkrunarfræðingi Laufeyju. Hún er að vinna á sama sjúkrahúsi og við þótt við höfum aldrei séð hana enda 6.000 manna vinnustaður eins og komið hefur fram.

Svo vel vildi til að við höfðum farið í ríkið, svona af rælni, og hófst því fljótlega drykkja á svölunum hjá þessu öndvegisfólki sem býr í Storhaug, flottu hverfi við miðbæinn sem er ekkert ósvipað og Våland að byggingarstíl og sjarma en frá því hverfi sagði ég stuttlega í pistli hér um daginn.

Nú, eitt leiddi af öðru og fljótlega var Hjalli búinn að tendra grillið og töfraði af alkunnu listfengi sínu fram ákaflega ljúffengt nautakjöt með bökuðum kartöflum og öllu tilheyrandi. Fátt er ánægjulegra en glampandi sól, grillað nautakjöt og rauðvín…nema ef vera skyldi gin & tónik.
azura
Ekki dró úr blíðunni á sunnudaginn og þegar við hjóluðum niður í bæ í sumarskapi reyndist hann fullur af Bretum á eftirlaunaaldri. Ekki þurfti að leita skýringarinnar lengi enda ekki hægt að komast hjá því að taka eftir þessu líka svakalega skemmtiferðaskipi, Azura frá Southampton, sem hér var statt á vegum P & O Cruises, að því er virtist með hálft breska samveldið innanborðs. Allur miðbær Stavanger virtist samanstanda af leikfangahúsum við hlið þessa skrímslis sem hefur meðaleinkunnina fimm stjörnur í alþjóðlega skemmtiferðaskipaeinkunnakerfinu sem ég reyndar þekki hvorki haus né sporð á. (MYND: Azura, fljótandi klikkun. Maður hefur séð þau nokkur lúxusskipin en þetta slær held ég öllu við.)

Bretarnir virðast búa yfir spádómsgáfu þar sem dallurinn laumaði sér hljóðlega á haf út þegar viðureign Englands og Þýskalands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu var um það bil hálfnuð. Þjóðverjar rúlluðu leiknum upp 4-1 sem eru um það bil fyrstu úrslitin á þessu móti sem ég frétti af en eins og þeir vita sem til þekkja hef ég aldrei skilið tilgang þess að 22 fullorðnir menn eltist við einn og sama boltann. Reyndar verð ég þó að gefa þessari hvimleiðu iðju það að stórmót innan hennar virðast hvetja til mjög stífrar drykkju sem er ágæt aukaverkun enda var stemmningin í miðbænum alveg gríðarleg þegar leið á daginn og mátti með jöfnu millibili heyra margrödduð skerandi fagnaðaróp berast frá öldurhúsum borgarinnar, mest þó við Skagenkaien þar sem barirnir standa í langri og fagurri röð.
hm
Við notuðum tækifærið í þessari góðu stemmningu og héldum upp á 35 ára afmæli Rósu með miklum rauðvínsaustri. Afmælið hennar er reyndar í dag en í dag vorum við í vinnunni. Aðalveisluhöldin verða þó á laugardaginn en þá ætlum við að láta þann tveggja mánaða gamla draum rætast að borða á veitingastaðnum Flor & Fjære sem er á eyjunni Sør-Hidle en þangað er um 20 mínútna sigling frá Stavanger. Um er að ræða eins konar dagsferð þar sem gestir njóta ægifagurrar náttúru eyjarinnar áður en sest er til borðs. Ekta staður til að halda upp á hálfstórafmæli. Ég hvet lesendur til að skoða heimasíðuna með því að smella á hlekkinn hér að framan. Myndirnar segja meira en mörg orð. Gera myndir það ekki alltaf? (MYND: Logandi stemmning í miðbænum, bareigendur gráta ekki svona daga.)
hmii
Ég lofaði skýrslu um sjödagaáhrifin af kreatíninu frá Proteinfabrikken sem ég skrifaði um í siðustu viku. Þetta er engin sprengja svo sem, þó ágætt kreatín og áhrif þess vel merkjanleg. Ég hef þegar þyngst úr 97,4 kg í 98,0 (töluverð fitubrennsla vegna hjólreiða og upphitunar á bretti fyrir æfingar vegur á móti í þyngdartölum). Þetta kreatín kemst ekki með tærnar þar sem Horsepower og Nitrobolon II hafa hælana en virknin er allt í lagi og það verður að teljast ódýrt, 199 norskar fyrir hálft kíló sem er býsna hóflegt. Ég gef þó Proteinfabrikken hvergi nær upp á bátinn og hlakka mikið til að prófa Tricreatin frá þeim sem ég nefndi í pistli hér síðasta þriðjudag. Útgönguspár gera ráð fyrir að ég verði kominn upp í núllið (100 kg) fyrir miðjan júlí. Það fer þó eftir drykkju en hún vill fylgja sólríkum dögum. (MYND: Fjörið var ekki minna hjá þeim sem fórnuðu sólinni til að sitja yfir boltanum inni við. Þarna voru einhverjir að skora, sennilega Þjóðverjar sé miðað við hefðbundinn líkindareikning.)

Athugasemdir

athugasemdir