Aftur til upprunans

kamburÉg er orðinn nauðasköllóttur og skegglaus á ný eins og mér er eðlilegast. Ítarlega var fjallað um það hér á síðunni þegar skeggið var rakað af og sett í poka í fyrrasumar en það var ekki fyrr en í gær sem ég ákvað að fálmkennd, illa ígrunduð og pirrandi hársöfnun mín, sem þó stóð í eina 13 mánuði, væri tómt rugl. Það fer mér hreinlega ekki að vera með hár auk þess sem þetta er bölvaður tímaþjófur og vesen í líkamsrækt og öðru sem hefur sturtu sem fylgifisk. (MYND: Pönkinnrás í Sandnes? Nei, en ég stóðst ekki freistinguna að bregða aðeins á leik með rakvélina í gær.)

Ég dreif í þessu í gærkvöldi og átti fyrir vikið frábæran dag í dag þrátt fyrir sex klukkustunda fyrirlestur í jarðfræði. Já, þetta er ekki einu sinni lygi. Hér á bæ hófst nám í olíufræðum á föstudaginn og síðan er ég búinn að sitja og hlýða á jarðfræðikennslu í alls 18 klukkustundir. Þetta er auðvitað mikið áfall. Eitt er að ég hef ekki verið í skóla síðan ég lauk MA-námi fyrir tæpum þremur árum og annað að ég hef ekki lært jarðfræði síðan í MR veturinn 1989 – 1990. Sú jarðfræði var auk þess svona ósköp krúttlegt eitthvað um skriðjökla, uppblástur, plagíóklas og gervigíga en núna er það bara harkan sex, myndun jarðefnaeldsneytis í setlögum, hljóðbylgjurannsóknir, borkjarnasýni og mat á vænlegum stöðum til tilraunaborana.
skalli2013
Þetta er þó ákaflega fróðlegt og spennandi allt saman og ljóst að nýr heimur mun hafa opnast að loknum prófum í vor. Við munum læra að undirbúa borun olíubrunns á hafsbotni, lesa úr þeim jarðvegi sem upp úr honum kemur, gera hann kláran til vinnslu, dæla úr honum olíu eða gasi og að lokum ganga frá honum aftur og innsigla í samræmi við umhverfisreglur sem eru vægast sagt ítarlegar…enda norskar. (MYND: Sko, þetta er allt annað líf. Sjampó, hárnæring, gel, flasa, lýs, burstar og greiður geta nú siglt lygnan sjó beint til helvítis og einu græjurnar sem ég þarf á hausinn á mér er Mach3-skafa og rakfroða.)

Lesendur geta því ímyndað sér að það var léttir að mæta í skólann (sem í raun er enginn skóli heldur virðulegur ráðstefnusalur á Rica Forum Hotel í Stavanger) í morgun nauðasköllóttur og straumlínulaga án óþarfa farangurs. Sennilega held ég þessu hárástandi það sem eftir er en áskil mér þó rétt til að taka þátt í Mottumars af og til ef ég nenni.

Eins og allur þessi skóli sé ekki nægilegt til að æra óstöðugan hef ég nú hafið minn árlega þurrk, algjört áfengisbindini frá áramótum og að þessu sinni fram að páskum. Ég sór í fyrra við skegg mitt og skalla (annað var þá til staðar en hitt reyndar ekki) að taka aldrei aftur þrjá mánuði og halda mig við hefðbundna tvo, janúar og febrúar, eins og ég hef gert frá 2004 en allt þetta skólabrölt kallar á meiri einbeitingu en Bakkus gamli býður upp á. Nú er það sem sagt bara æðruleysið sem bíður mín næstu ellefu vikurnar, líkamsrækt, vinna, skóli og fagurbókmenntir. Líklega verð ég genginn í klaustur undir vor eða af vitinu.skeggii

Annállinn sem lofað var í síðasta pistli birtist hér, ég nennti bara ekki að skrifa hann svona nýsköllóttur, en einnig má brátt lesa hér veitingahúsagagnrýni frá Amsterdam, það sem ég man af ferðasögunni þaðan og reglulega píslarsögu ævi minnar eins og þurrkurinn einn getur kallað fram. (MYND: Hár og skegg ársins 2012 voru verðug mannfélagsleg tilraun og sýndist sitt hverjum. Helsti kosturinn var að geta mætt á götu fólki sem ég nennti ekki að tala við og það virti mig ekki viðlits. Helstu ókostir voru margir, einkum í sól.)

Athugasemdir

athugasemdir