Afsakið hlé

p5240102Það verður einhver ládeyða hérna á heimsfréttastofunni fram í miðja næstu viku, við fljúgum til Íslands klukkan 06:00 að staðartíma í fyrramálið til að vera við útför tengdaföður míns á Akureyri á mánudag. Reynt að sinna hefðbundnum fjölskylduheimsóknum eftir megni en verður knappt þar sem við komum hingað aftur með morgunvélinni á þriðjudag. (MYND: Það verður áfall að lenda í Keflavík, svona er veðrið hérna núna, klukkan 22:18, og fyrri hluti dagsins eftir því.)

Það sem mér líst minnst á af þessu öllu saman er það veður sem virðist ætla að bíða okkar á Fróninu sem mér þykir nú bera heiti sitt með rentu. Hérna hefur verið upp undir 20 stiga hiti í dag og glampandi sól, ég held að ég hafi hlaupið sirka átta sinnum út með kaffibolla í vinnunni og tyllt mér “aðeins” út á kæja og horft yfir spegilgljáandi Norðursjóinn til að stelast í blíðuna.

Svo heyri ég frá skyldmennum og á Facebook og sé á norsku veðursíðunni yr.no að hiti á Íslandi er rétt yfir frostmarki, stinningskuldi, skyggni ekkert og úrkoma á síðustu klukkustund, Sauðanesviti logar ekki (jæja ókey, ég veit ekki með hann reyndar). Hvað á þetta að fyrirstilla í lok maí?? Ég segi bara eins og frændur okkar hérna: “Det ser ikke ut!”

En við mætum engu að síður þótt stoppið sé stutt og næst þá að minnsta kosti að slá á verstu KFC-fíknina og fylla eina ferðatösku í Bónus á mánudaginn…og kaupa tollinn. Þetta er kannski ekki svo slæmt eftir allt saman. En ég panta vinsamlegast skárra veður en þetta hret þegar við lendum í rammíslenska hluta sumarfrísins okkar 19. júlí næstkomandi.

Hlökkum annars til að sjá hin hrímköldu vé fósturjarðarinnar rísa úr sæ í fyrramálið.

Athugasemdir

athugasemdir