Þema vikunnar í íslenskum fjölmiðlum virðist vera að svarta hagkerfið blómstri eftir að í ljós kom að Hekla getur ekki ráðið til sín bifvélavirkja þrátt fyrir að nóg sé af þeim á atvinnuleysisskrá. Kemur einhverjum þetta á óvart? Það þurfti enga hagfræðinga til að spá því að gerræðislegar og ýktar skattahækkanir hins vinstri græna jarðfræðings kæmu til með að skila sér seint og illa í ríkissjóð. Það voru þeir Kormákur og Skjöldur á samnefndri ölstofu sem bentu á það í sjónvarpsviðtali árið 2009 að fjármálaráðherrar yrðu að sjá sóma sinn í að láta B-in þrjú í friði: Bjór, bensín og brauð (ég hefði auðvitað sagt brennivín í stað bjórs en merkingin er í raun sú sama). (MYND: Fyrsta rauðvínslögnin mín í bílskúrnum á Leirutanganum haustið 2009. Þetta var mikið fjör og eru smakkferðirnar í bílskúrinn minnisstæðar. Jólarauðvínið kláraðist til dæmis í október.)
Þetta reyndist svo auðvitað rétt, sala ÁTVR hefur dregist saman um tveggja stafa prósentutölu á meðan bruggið flýtur, gert er við bíla landsmanna í skúrum og skemmum án pappíra og nú er ég að lesa það hjá RÚV að aldrei hafi meira reiðufé verið í umferð á Íslandi síðan mælingar hófust, 40 milljarðar í beinhörðum peningum eru í vösum landsmanna þessa dagana.
Er það furða? Þanþolið er að verða býsna takmarkað þegar tekjuskattur er hátt í 50 prósent og nægir að vera á atvinnuleysisbótum ásamt því að taka út viðbótarlífeyrissparnað til að komast upp í 2. þrep, 40,21 prósent tekjuskatt. Það er svo öfugsnúið að tekur engu tali. Þetta skilar sér svo með leifturhraða út um allt samfélagið og í mjög margar atvinnugreinar, sérstaklega iðngreinar þar sem viðskipti eru oft á milli tveggja eða fárra aðila og útilokað að hafa nokkurt eftirlit með starfseminni. (MYND: Ekki voru kartöflurnar síðri þótt þeim fylgdi minni ölvun. Við skelltum niður þremur tegundum. Þetta bragðast alltaf betur þegar maður býr það til sjálfur.)
Ég reyndi fyrir mér í tveimur greinum svartrar starfsemi síðasta árið á Íslandi og var þar um að ræða kartöflurækt og bruggun léttvíns. Sú fyrrnefnda var nú ekkert mjög svört svo sem og fór fram í til þess gerðum leiguskika uppi í Mosfellsbæ. Hin var svona grá, frumvarp um breytingu á áfengislögum sem lagt var fyrir Alþingi árið 2004 og miðaði að því að þau tækju aðeins til sterkara áfengis en 22 prósenta, dagaði þar uppi. Með því hefðu reglur laganna um tilbúning áfengis breyst og verið heimilt að brugga léttvín án nokkurra takmarkana.
Samkvæmt núgildandi áfengislögum er framleiðsla áfengis bönnuð á Íslandi án skriflegs leyfis lögreglustjóra. Ég leyfi mér að efast um að bílskúrsfiktarar sæki mikið um það. Ég gerði það alla vega ekki. Ekkert bann virðist þó liggja við því að selja efni og tæki til léttvínsbruggunar og hefur Áman við Rauðarárstíg án efa vaxið mest íslenskra fyrirtækja síðan 2009. Þeir fengju sennilega kúlulán hjá hvaða banka sem vera skyldi bara með því að skella bókhaldinu á borðið.
Ég seldi reyndar hvorki kartöflur né vín, hvort tveggja var til heimilis- og einkanota svo líklega yrði mér hált á því að heimfæra undir svarta atvinnustarfsemi. Boðskapur frásagnarinnar er hins vegar sá að án kreppu hefði ég aldrei farið að dunda mér við þetta sem hefði eiginlega verið sorglegt þar sem hvort tveggja var bráðskemmtilegt. Kreppur hafa því góð og slæm áhrif. En ég er ekki hissa á því að nú grasseri margt neðanjarðar á Íslandi. Ætli fjármálaráðherra klóri sér í höfðinu yfir því?