Af menningarástandi

p7080332Það er óhætt að halda því fram að Mosfellsbærinn sé vagga menningar og lista. Hér á heimili mínu var stutt atriði kvikmyndarinnar Bjarnfreðarson tekið upp nú í nýliðinni viku. Að sögn leikstjórans, Ragnars Bragasonar, verður þetta verk helsta skrautfjöðrin í íslenskri jólamyndaflóru komandi jól. Vonandi verður þá einhver eftir á landinu til að fara í bíó, manni er það stórlega til efs. (MYND: Á tökustað. Bergsteinn Björgúlfsson tökumaður, oft nefndur Besti, fyrir miðri mynd.)

Nú líður að sumarfríi mínu sem hefst strax eftir verslunarmannahelgi. Ég lygi ef ég neitaði því að ég væri orðinn þokkalega langeygur eftir því að flatmaga í heilan mánuð í sólinni með gin & tónik og einstaka glas af ísköldu hvítvíni. Líkt og flestir landsmenn mun ég ferðast innanlands. Í byrjun er stefnan tekin á Flatey hina breiðfirsku. Þar verður fyrsta nóttin tekin með glans á Hótel Flatey en þá er lúxusinn búinn og gamla tjaldið tekur við. Það er reyndar ekki svo gamalt, keypt í Intersport í fyrrasumar.

Eftir þetta höfum við nokkuð frjálsar hendur en ljóst er að Fiskidagurinn mikli á Dalvík verður eitt af okkar stoppum. Hann er 8. ágúst í ár en sama dag er Gay Pride í Reykjavík. Maður íhugar hvort tengsl séu þarna á milli. Þessi hátíð er sniðug hjá Dalvíkingum, Úlfar á Þremur Frökkum er yfirkokkur hátíðarinnar og þegar ég skoða heimasíðuna sýnist mér að enginn muni fara þaðan svangur. Matseðillinn er með því metnaðarfyllra sem gerist. Dalvíkingar opna heimili sín og bjóða upp á fiskisúpu, Papar leika fyrir dansi og ég veit ekki hvað. Ég hef aðeins einu sinni ekið um Dalvík, það var nálægt lokum ársins 1999 minnir mig. Gata sem liggur þar meðfram sjónum heitir Martröð. Ekki verða götuheiti mikið frumlegri en það.

Athugasemdir

athugasemdir