Af hefð og löggrónum vana

vsitlurÉg hef gaman af að fylgjast með Silfri Egils á sunnudögum og fagna því að vertíðin hjá Agli er nýhafin aftur eftir sumarið. Ég á dásamlega stund á sunnudagskvöldum þegar ég horfi á Silfur dagsins á vef Ríkisútvarpsins og gleymi öllu öðru á meðan.

Í dag var Robert Z. Aliber, hagfræðingur, rithöfundur og professor emeritus við Chicago-háskóla, einn af gestum Egils og stóð vaktina með sóma og rétt rúmlega það. Aliber varð heimsfrægur á Íslandi, eins og það er kallað, á einum degi í maí 2008 þegar hann spáði bankahruninu með óhugnanlegri nákvæmni og góðum rökum. Sagt er að hann hafi gengið um Reykjavík og metið það út frá fjölda byggingakrana í borginni að þetta gæti aðeins endað á einn veg eins og það gerði með látum í október sama ár.

Aliber er sérfræðingur í efnahagsbólum og fjallar meðal annars um íslensku risabóluna og óhjákvæmilega sprengingu hennar í bók sinni Manias, Panics and Crashes.
Bókina hef ég ekki lesið en glöggt má sjá á málflutningi Alibers í Silfrinu í dag að hann kann að skilja hismið frá kjarnanum með glæsibrag. Maðurinn er alveg með það á beinu hvað er að gerast í heimshagkerfinu og er í lófa lagið að setja það fram á skiljanlegu máli sem er að mínu viti aðalsmerki góðra fræðimanna. Hann ráðleggur Íslendingum að halda í krónuna hvað sem á dynur og segir það einnig sterkan leik að draga úr þeim höftum sem íslensk stjórnvöld hafa komið á eftir þetta blessaða hrun. Hann klykkir út með því að segja að það myndi hann að minnsta kosti gera væri hann fjármálaráherra á Íslandi.

Þetta síðasta er frábært innlegg í umræðuna og um leið viss áskorun til fjármálaráðherra landsins. Mun hann þiggja ráðahaginn? Klárlega ekki. Viðhorf íslenskra stjórnvalda er óbreytt síðan fyrir hrun: Við þurfum enga helvítis útlendinga til að segja okkur hvernig á að stjórna landinu. Sannleikurinn er þó sá að Íslendingar ráða ekki við það sjálfir að halda Íslandi gangandi. Fyrsta dæmið um það er Gamli sáttmáli árið 1262 þegar íslenskir höfðingjar voru búnir að drulla upp á bak við stjórn landsins og báðu Noregskonung að hjálpa sér að ‘ná friði og íslenskum lögum.’ Núna, tæpum 1000 árum síðar, er drullan komin upp á hnakka en ekki lærum við neitt. Það á bara að halda áfram af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan, eins og Jóhann Jónsson orti í Söknuði.

Hérna í Stavanger eru yndislegir haustdagar og tími arinelds, kaffis og Bailey’s að renna upp. Mér finnst haustið alveg sérstakur tími, hvort tveggja á Íslandi og í Noregi. Fyrir mig hefur haustið oftast verið tími breytinga eins og ég skrifaði hérna um daginn. Það markaði upphaf nýs skólaárs þegar maður var við nám og oft hefur septembermánuður fært mér nýjan vinnustað, bæði núna í ár, í fyrra, 2003 og 1998. Fyrsta september 2008 hóf ég MA-námið sem ég var búinn að ætla mér í síðan 2004 en frestaði ár eftir ár. Það er erfitt að standa upp úr sófanum og henda sér inn í einhverjar aukaframkvæmdir þegar maður er búinn að hafa það náðugt og vera ‘bara að vinna’ árum saman. Hvernig verður þetta þá eftir tíu ár?

Athugasemdir

athugasemdir