Af bakspiki og fleiri þjóðfélagslegum vandamálum

themanJæja, eftir þrjár djöfullegar vikur í World Class í Spönginni, þar sem endurhæfing mín fer fram, er ég aðeins farinn að sjá til sólar á ný. Ég játa það fúslega að ég hef svitnað eins og hóra í kirkju á bölvaðri skíðavélinni fyrstu 15 mínútur hverrar æfingar. Ekki bætir það úr skák að hafa ekkert annað útsýni en Bónusverslunina hinum megin við Spangartorgið. Þessar stig- og skíðavélar eru leiðinlegri en helvíti og varla bætir úr skák að ég neyðist til að hlusta á bullið í vinnufélögum mínum hjá 365 sem halda úti þættinum Zúúber á FM 957 og stíga varla í vitið (OK, þetta er djók, Svali, sorrý!).

Sennilega þarf ég að fá mér svonefnda tónhlöðu eða iPod til að komast í gegnum þessar fyrstu 15 mínútur sem helgaðar eru lýsisbrennslu minni. Ég sé fyrir mér að Pantera, Metallica, Rammstein, Obituary og fleiri góðir tónlistarmenn verði mér mun meiri hvatning á skíðunum en Svali vinur minn.

Eftir skíðavélina tekur stálið við. Enn og aftur hef ég tekið til við neyslu Horsepower-kreatínsins frá Ultimate Nutrition með tilheyrandi kláða og allt að því ofskynjunum sem meira má lesa um í þessum pistli. Sem betur fer skilar það einhverju…en ekki öllu. Enn þarf ég að sætta mig við tveggja stafa tölu í bekkpressu og skammarlegar þyngdir í tvíhöfðaæfingum á svonefndum predikarabekk (e. preacher curls) en þær einangra tvíhöfðann (lat. biceps brachii) öðru fremur og útiloka allar svindlhreyfingar sem eru ótrúlega algengar í standandi krulli (e. curls). Mér verður hugsað til góðrar spurningar úr auglýsingu sem ég sá í hléi í bíó um daginn,Ætlarðu að deyja með þessa handleggi?Ég leyfi mér að svara því til að frekar dey ég handalaus.preacher curls

Þar sem ég nefndi bekkpressu hér að framan og skítlega frammistöðu í henni verð ég að rifja upp haustið 1997 þegar ég reif upp 140 kílóin í fyrsta og eina skiptið. Og það fyrir tómar lygar samlyftara minna, Péturs Leifssonar og Jóns Þórs Tynes. Þannig var að við Jón Þór, sem er sonur míns ástkæra vinnufélaga Óla Tynes, höfðum báðir skellt upp 137,5 kílóum í miklum vígamóð og vorum ólmir í frekari afrek. Þetta var í World Class í Fellsmúla sem margir lesendur mínir muna eftir. Við erum sem sagt inni í afkimanum þar sem bekkpressurnar voru og ég brá mér fram að vaski og svalaði mér á ekta íslensku vatni. (MYND: Preacher curls)

Þegar ég kem til baka standa Pétur og Jón Þór þar í ástleitnum faðmlögum og fagna ákaft. Ég spurði hverju sætti og ekki stendur á svarinu: Jón Þór tók sig til og grýtti upp 140 kílóunum á meðan ég var í burtu. Þessu til sannindamerkis glotta sex 20 kílóa lóð framan í mig, hvor þrjú sínu megin af stönginni (og stöngin sjálf er 20 kíló fyrir þá sem ekki stunda stálið). Ég missti strax stjórn á skapi mínu og hringvöðva endaþarms. Ó nei, aldrei skyldi þessi ósvinna líðast meðan moldir og menn lifa!bakspik

Ég kastaði mér á leðurklæddan bekkinn, grenjaði vel á stöngina og lét vaða. Viti menn, helvítis fargið mjakaðist upp, skröltandi á stönginni, og endaði í höfn. Örninn er sestur! Þá játuðu helvítin að þeir voru að ljúga að mér, hvorugur þeirra lyfti neinu á meðan ég fór og fékk mér vatn. Svona getur lygin oft borgað sig, sennilega hefði ég aldrei tekið 140 kílóin ef ekki hefði verið fyrir bull þeirra drengja. Skömmu seinna hafði Jón Þór svo 140 upp og nokkru eftir það 142,5. Ég fór aldrei yfir 140 og þegar þetta er ritað teldist ég heppinn að ráða við 90 kíló. Vissulega ömurð en stefnt er á hroðalegar bætingar með rísandi sól! (MYND: Bakspik, mesti viðbjóður sem ég hef augum litið, sérstaklega þegar það er á mér!!!)

Athugasemdir

athugasemdir