Ambögur og ýmis málfarslegur niðurgangur sem skyndilega hefur skotið upp kollinum og ágerst hratt er allt að því rannsóknarefni fyrir málvísindafólk. Eitt af nokkrum dæmum er hinn tiltölulega nýi ruglingur á smáorðunum að og af þegar þau gegna hlutverki forsetninga, en þó nánast eingöngu þegar um ritmál er að ræða.
Tiltölulega réttskrifandi fólk leitar af bíllyklunum sínum, kvartar yfir að hlegið sé af því, er ánægt með lífið af mestu leyti og í morgun las ég í fyrirsögn netmiðils nokkurs um jarðskjálfta að stærðinni 5,3 í Bárðarbungu. Eftir minni upplifun að dæma fara flestir hins vegar rétt með þessar forsetningar í talmáli sem hlýtur að vera nánast einsdæmi þegar um málfræðileg atriði er að ræða nema ef vera skyldi gamla góða flámælið sem heyrir auðvitað mun fremur undir hljóðfræði en hreina málfræði. Það merkilegasta við þessa að/af-villu er að hún virðist ekki vera mikið meira en áratugar gömul, ekki man sá sem hér ritar til þess að þetta atriði hafi verið sérstakt vandamál hjá skrifandi fólki um eða upp úr síðustu aldamótum og hefur þó verið viðloðandi prófarkalestur á vettvangi fjölmiðla og lokaritgerða síðastliðin 20 ár…sem sýnir mér bara að ég er orðinn hundgamall. Það er þó útúrdúr.
Annað undarlegt dæmi er hve eignarfallsflótti, eða „Ingibjörgu-vandinn“ eins og einhver nefndi svo í blaðagrein, hefur hert tökin á íslenskum málnotendum hin síðustu ár þótt fyrirbærið sé langt í frá nýtt af nálinni. Helgi Skúli Kjartansson skrifaði líklega fyrstur um eignarfallsflótta í 1979-árgang Íslensks máls og almennrar málfræði í grein sem hann nefndi „Eignarfallsflótti – uppástunga um nýja málvillu“ og komst þar að þeirri niðurstöðu að ákveðnar setningafræðilegar kringumstæður, einkum flóknar setningar með mörgum eignarfallsliðum þar sem jafnan væri nokkur vegalengd milli fallvalds og liðar sem hann stýrði, ykju líkurnar á því að málnotendur rugluðu saman fallmyndum.
Þessi greining Helga Skúla hitti algjörlega í mark á sínum tíma en upplifun mín, nú á hinum síðustu (og verstu?) tímum, er að nú séu margir eignarfallsliðir og flókin setningabygging ekki lengur gróðrarstía eignarfallsflóttans. Núna virðist mörgum nægja eitt nafnorð í eignarfalli til að verða fótaskortur á tungunni og sér þessa nú víða dæmi í fjölmiðlum þar sem þó æva skyldi. Eftirfarandi dæmi eru öll úr fjölmiðlum nema það síðasta og ekkert þeirra eldra en eins árs:
Í kjölfar dómsuppkvaðningu, …vegna skyndilegrar aukningu, …leiðir til eflingu starfseminnar og …kærar þakkir til Ingibjörgu.
Hvar leitar maður svo skýringa á tiltölulega hraðri sveiflu almenns málfars í ógæfuátt? Er það skólakerfið sem bregst eða byrjar vandinn á heimilunum? Minni bóklestur, erlend áhrif, almenn firring? Hrungjörn lauf í haustskógi? Ég hef ekki hugmynd en það er að minnsta kosti forvitnilegt að velta þessu fyrir sér þegar maður er kominn aðeins yfir strikið í kaffineyslu dagsins…