Aðþrengdir mávar og jákvæða sagan mín af Orkuveitu Reykjavíkur

eggHáskólasjúkrahúsið í Stafangri er byggt umhverfis gróður- og skjólsælan garð þar sem starfsfólkið nýtur jafnan sólar og matarbita í vinnuhléum. Garðurinn er alveg lokaður af og afmarkast af gamla spítalanum og síðari tíma viðbyggingu svo úr verða nokkuð sérkennilegar andstæður. Þarna er fínt að sitja í sólbaðinu og finnst fleirum en mannfólkinu þar sem hópur máva er jafnan á sveimi um garðinn, iðinn við að tína upp brauðmylsnu og annað sem kastað er til þeirra af veisluborðinu. (MYND: Blómakerið reyndist við nánari skoðun innihalda fleira en blóm, sbr. máltækið að líða eins og blóma í eggi (sem nú sést víða sem blómi í eggi en hitt er þó upprunalegra).)

Sumir mávanna hafast þó annað og meira að en að éta og skíta. Par nokkurt boðar fjölgun í stofninum og hefur í því skyni lagt tvö dröfnótt egg í steinsteypt blómaker í garðinum. Varpstaðurinn hefur líklega verið valinn í fljótfærni og móðirin síðan fengið að reyna að fyrir kaldhæðni örlaganna lenti varpstöð hennar inni í miðju kaffi- og matarsamsæti fjölda sjúkrahússstarfsmanna. Hún hefur þó reynst töluvert meiri nagli en hinn almenni mávur sem erfitt er að nálgast meir en að 10 metra radíus og liggur á eins og herforingi innan um skvaldrandi kös framandi og ófiðraðra einstaklinga.
mavur
Ég mundi loks eftir því í morgun að kippa myndavélinni með í vinnuna og náði meðal annars þeim myndum sem prýða þennan pistil. Við þetta er engu að bæta nema því að nú bíð ég bara eftir að ritstjóri dýraljósmyndadálks National Geographic hringi með öndina í hálsinum og bjóði mér milljarða fyrir þessi stórvirki. (MYND: Sú gráhvíta lætur sér hvergi bregða við félagsskapinn sem hún fær að njóta í matar- og kaffitímum.)

Fleira er merkilegt við þennan dag, 15. júní. Á meðan kviður mávsins okkar vermdi eggin tvö hér í Stafangri steig rauðhærður maður í pontu í Ráðhúsi Reykjavíkur og flutti jómfrúarræðu sína sem borgarstjóri Reykjavíkur. Jón Gnarr Kristinsson. Fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um embættistökuna í dag en ég hef ekki enn séð vangaveltur um það hvort Jón Gnarr sé fyrsti rauðhærði borgarstjórinn í Reykjavík. Er hann það? Lesendur er hvattir til að fylla athugasemdakerfið af fróðleik um málið.
gardursus
Ég hef ekki farið í neinar grafgötur með stuðning minn við Jón og Besta flokkinn í skrifum mínum hér og fagna þessum úrslitum innilega. Rógtungur lýsa því yfir að fulltrúar Besta flokksins séu algjörlega glórulausir um hvernig stjórna beri milljarðaveltumaskínu á við Reykjavíkurborg en ég fullyrði á móti að enginn, sem komið hefur nálægt borgarstjórnarsalnum síðasta áratuginn, hefur heldur haft hundsvit á því. Ruglið hefur verið yfirgengilegt og trúverðugleikinn öfugu megin við núll. Helst hallast ég að því að Dagur B. Eggertsson hafi komist næst því að gera þokkalega hluti og stjórnað af töluverðum heilindum en þar getur allt eins verið að álit mitt sé litað tengslum mínum við Dag sem var skólabróðir minn hvort tveggja í MR og HÍ. Þeir Gauti bróðir hans eru drengir góðir og margt í þá spunnið. (MYND: Fagrar jurtir skoðaðar í garði góðs og ills með kaffibolla í hendi.)

Ég fagna því að ný borgarstjórn hyggst ráðast í að gera ítarlega úttekt á Orkuveitu Reykvíkinga. Brjálæðið sem þar hefur viðgengist er svo yfirgengilegt að Kim Jong-il og Norður-Kórea öll eru bara eins og hver annar Lionsklúbbur í samanburði við bullið á Bæjarhálsinum. Þarna er milljónajeppum dælt í stjórnendur án nokkurs samráðs við stjórn orkuveitunnar og svo blasir það við manni framan á DV að rafmagnið sé að hækka um 27 prósent og heita vatnið um 37 prósent og fyrirtækið skuldi 220 milljarða. Þá er nú ráð að kaupa sér nokkra Benz-jeppa…og einn handa fjármálastjóranum sem greinilega hefur stýrt fjárhagnum af kostgæfni.
gardursusii
Ég lokaði viðskiptum mínum við OR um síðustu mánaðamót með því að greiða þeim tugi þúsunda. Við liggur að maður hefði átt að láta það fara í vanskil eins og húsnæðislánin stökkbreyttu. Þegar einn kennara minna á haustönninni var hálfum mánuði of seinn með einkunn í janúar og rúmar 200 þúsund krónur frá LÍN létu bíða eftir sér á meðan kom maður frá OR þeysandi upp í Mosó og skrúfaði fyrir rafmagnið til mín einmitt þegar ég var að verða búinn að hita mér vatn í kaffi. Hvernig ná þeir að reikna slíkar tímasetningar út?? Ég hafði þá samið við veituna um að greiða 60.000 króna skuld um leið og námslánin kæmu en þegar þau létu bíða eftir sér var slökkt hjá mér án tafar. (MYND: Garðurinn séður ofan af svölum 6. hæðar, gamla byggingin blasir við. Í bláhorninu hægra megin sést hvernig nýrri hluti sjúkrahússins tengist henni í þann enda.)

Ég hringdi í þjónustuverið á sekúndubroti og rakti raunir mínar í einkunnamálum. Sá sem þar varð fyrir svörum hafði að eigin sögn einmitt lent í nákvæmlega sama hlut með einkunnaskil þegar hann var í HÍ og bað mig að sýna æðruleysi. Hann hringdi svo í manninn sem var að skrúfa lokið á rafmagnskassann beint fyrir utan húsið hjá mér en sá fór að dæmi AC/DC í titillagi plötunnar Flick of the Switch frá 1983 og viti menn, vatnið bullsauð skyndilega í katlinum. Þetta var jákvæða sagan mín af Orkuveitu Reykjavíkur. Fátt er svo með öllu illt greinilega og einhverjir gimsteinar glóa í mannsorpinu innan um illa fjármálastjórann og Hjörleif forstjóra.

Athugasemdir

athugasemdir